Ljóst var fyrir leikinn að Ísland þyrfti að vinna með fjögurra stiga mun eða meira til að enda í 3. sæti riðilsins og komast á HM. Georgíu dugði hins vegar sigur og allt að þriggja stiga tap.
Leikurinn hafði verið hnífjafn allan tímann og á lokamínútunni var staðan því þannig að Georgíumenn reyndu að passa að Ísland kæmist ekki fjórum stigum yfir, en þurftu í raun einnig að gæta þess að leikurinn færi ekki í framlengingu sem gæfi Íslandi nýjan möguleika á að búa til fjögurra stiga sigur.
Þegar tíu sekúndur voru eftir klikkaði Tornike Shengelia, besti leikmaður Georgíu, á báðum vítaskotum sínum og Ísland fékk færi til að tryggja sig inn á HM. Jón Axel Guðmundsson gerði vel í að búa til færi fyrir besta sóknarmann íslenska liðsins, Elvar Má Friðriksson, en skot hans fór í hringinn.
„Gæi sem að hugsar ekki neitt“
Þá voru hins vegar enn eftir örfáar sekúndur af leiknum og staðan 80-77 fyrir Íslandi, svo þristur frá Georgíu hefði leitt til framlengingar.
Bandaríkjamaðurinn Thaddus McFadden, sem reyndar hefur aldrei búið í Georgíu en spilar fyrir georgíska landsliðið, fékk frákastið.
McFadden hafði farið á kostum á lokakaflanum og meðal annars sett niður þriggja stiga skot þegar 45 sekúndur voru eftir. Hann áttaði sig líklega engan veginn á stöðunni sem uppi var á síðustu sekúnduum því hann reyndi þriggja stiga skot yfir allan völlinn og var ekki ýkja fjarri því að hitta, eins og sjá má hér að neðan.
GOODNIGHT TBILISI!
— FIBA Basketball World Cup (@FIBAWC) February 26, 2023
GEORGIA ARE HEADING TO THE WORLD CUP FOR THE FIRST TIME IN HISTORY!#FIBAWC x #WinForGeorgia pic.twitter.com/PhwrkubT49
„Hann reynir að skora. Hugsið ykkur ef hann hefði skorað? Það hefði verið framlengt. Þetta er svona gæi sem að hugsar ekki neitt. Það vann með honum á einum tímapunkti, en ég veit það ekki…“ sagði Benedikt Guðmundsson, landsliðsþjálfari kvenna, í umræðum á RÚV eftir leikinn.
McFadden hitti hins vegar ekki og Ísland fékk því ekki nýjan möguleika á að ná upp fjögurra stiga forskotinu sem liðið þurfti til að fara á HM í fyrsta sinn. Þess í stað gátu McFadden og félagar fagnað fram eftir nóttu með fjölmörgum stuðningsmönnum sínum en Georgía var að vinna sér inn sæti á HM í fyrsta sinn.