Leikarnir hófust í gær og er um að ræða mikla íþróttahátíð þar sem einblínt er á einstaklingsíþróttagreinar.
„Yfir tuttugu íþróttagreinar verða á dagskrá næstu tíu daga. Hátt í fjögur hundrað erlendir keppendur koma vonandi til landsins; veðrið er aðeins að stríða okkur en þetta verður algjör íþróttaveisla,“ segir Silja Úlfarsdóttir, fyrrum afrekskona í hlaupum en hún starfar í dag sem upplýsingafulltrúi ÍBR sem stendur að leikunum.
Silja reiknar með harðri keppni í mörgum greinum og bendir á að sumt af fremsta íþróttafólki landsins taki þátt.
„Til að mynda mun Guðbjörg Jóna keppa í 60 metra hlaupi og Anton Sveinn keppir í sundi. Það verður fullt af flottu íslensku íþróttafólki og við erum líka með öflugt erlent íþróttafólk; til að mynda heimsmeistara í kúluvarpi og fullt af öðru frábæru íþróttafólki,“ segir Silja.
Viðtalið við Silju í heild má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.