Línan sló fyrst út um korter yfir þrjú en í fyrstu var hægt að nota virkjanir á Reykjanesi til að halda rafmagni á. Það gekk þó ekki til lengdar og varð fljótt rafmagnslaust í kjölfar þess.
Fylgst er með stöðunni í vaktinni að neðan.
Í tilkynningu frá HS Veitum segir að unnið sé að því að koma rafmagni á að nýju. Ekki liggur fyrir hve umfangsmikil bilunin er en talið er að bilun í yfirspennnuvara á Fitjum hafi valdið rafmagnsleysinu, samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Veitum.
Margir hafa tjáð sig við færslu HS Veitna um bilunina á Facebook og lýst yfir áhyggjum af því að stutt sé í leik íslenska landsliðsins í handbolta við Suður-Kóreu á heimsmeistaramótinu.
Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir mannskap á leiðinni til að gera við bilunina.
„Við vonum það besta,“ segir Steinunn í samtali við Vísi. „Við gerum allt sem við getum til að koma rafmagni aftur á.“
Guðjón Helgason hjá ISAVIA segir að rafmagnsleysið gæti haft takmörkuð áhrif á afgreiðslu flugvéla á Keflavíkurflugvelli, þar sem landgangar keyri á rafmagni. Hins vegar séu öflugar varaaflsstöðvar á flugvellinum og þær eigi að geta séð flugvellinum fyrir því rafmagni sem til þarf.
Fylgst er með stöðu mála í vaktinni að neðan.