Innherji

Seðlabankinn breytir skipuritinu til að „styrkja fjármálaeftirlit“

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. Vísir/Vilhelm

Seðlabankinn hefur breytt skipuriti sínu þannig að fagsviðum sem sinna fjármálaeftirliti fækkar úr fjórum í tvö. Breytingarnar eru sagðar taka mið af þeirri þróun sem átt hefur sér stað á fjármálamarkaði og hafa það að markmiði að styrkja fjármálaeftirlit bankans. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Seðlabankanum. 

Þrjú svið, þ.e. svið banka, lífeyris- og vátrygginga og markaða og viðskiptahátta hafa verið lögð niður og nýtt svið, varúðareftirlit banka, lífeyrissjóða og vátrygginga sett á fót. Verkefni sem nú eru unnin á sviði markaða og viðskiptahátta færast að meginstefnu til sviðs lagalegs eftirlits og vettvangsathugana, sem fær nýtt heiti, háttsemiseftirlit. 

Samkvæmt nýju skipuriti verða kjarnasvið bankans því fimm, þ.e. hagfræði og peningastefna, markaðsviðskipti, fjármálastöðugleiki, varúðareftirlit og háttsemiseftirlit. Stoðsvið bankans verða sem fyrr fjögur, þ.e. rekstur, upplýsingatækni og gagnasöfnun, fjárhagur, og mannauður, auk miðlægrar skrifstofu bankastjóra. Engar uppsagnir starfsfólks eiga sér stað við þessar breytingar.

„Frá sameiningu Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins í upphafi árs 2020 hafa skapast möguleikar til frekari samþættingar innan fjármálaeftirlits. Mikil þróun hefur orðið undanfarinn áratug varðandi þær kröfur sem gerðar eru til fyrirtækja á fjármálamarkaði. Þannig hefur aukin áhersla verið lögð annars vegar á einstaka áhættuþætti, s.s. stjórnarhætti, rekstraráhættu og hins vegar á einstök verkefni, s.s. viðskiptahætti og aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka,“ segir í tilkynningu Seðlabankans.

„Framangreind þróun krefst þess að fyrirtæki á fjármálamarkaði kynni og tileinki sér nýjar og ítarlegar kröfur sem gerðar eru til starfsemi þeirra. Á sama tíma eru gerðar auknar kröfur til eftirlitsstjórnvalds sem þarf að hafa djúpa þekkingu á einstökum áhættuþáttum og þeim kröfum sem gerðar eru svo fræðslu og eftirliti sé sinnt þannig að lagaleg hlítni sé tryggð á fjármálamarkaði.“

Á sviði varúðareftirlits sameinast fjárhagslegt eftirlit og eftirlit með áhættuþáttum í starfsemi eftirlitsskyldra aðila. Með þessu leitast Seðlabankinn við að tryggja betri yfirsýn yfir starfsemi þeirra og eftirlit með samstæðum á fjármálamarkaði gert markvissara. 

„Þá mun þetta styrkja samvinnu sérfræðinga á ýmsum sérsviðum áhættugreiningar og draga úr lykilmannaáhættu sem hlýst af að dreifa hliðstæðri þekkingu á tvö svið,“ segir í tilkynningunni. 

Eftir breytingarnar mun eitt svið, háttsemiseftirlit, sinna viðurlagabeitingu, með það að markmiði að auka sérhæfingu og samræmi í verklagi. Breytingarnar fela í sér aukna samþættingu og minnkun lykilmannaáhættu og eru eðlilegt framhald af sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×