Í tilkynningunni frá Íslandsbanka kemur fram að hafið sé sáttaferli eftir frumathugun fjármálaeftirlitsins. Það er mjög algengt að málum sem FME rannsakar sé lokið með sátt og hefur það gerst á annað hundrað sinnum á síðan 2007, en þá var heimild til sátta fest í lög.
Í ensku útgáfu tilkynningarinnar kemur fram að sáttaferlið sjálft hafi hafist af frumkvæði Íslandsbanka. Bankinn hyggst ekki tjá sig við fjölmiðla að svo stöddu, Fjármálaráðherra var heldur ekki til viðtals um málið í dag og fjármálaeftirlitið ber fyrir sig þagnarskyldu.
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar vill meira gagnsæi.
„Auðvitað er það þannig að núna er bara málið í lögformlegu ferli og í sjálfu sér ekkert við það að athuga. En af því að þarna undir er sala á ríkiseign að þá finnst mér bæði að þeir sem eru til rannsóknar og þeir sem eru að rannsaka, að það hvíli kannski svona aðeins meiri tilkynningaskylda til almennings þegar að þannig háttar.“
Mikilvægt sé að halda áfram sölunni á bankanum.
„En á endanum og þetta er algert grundvallaratriði, á endanum snýst þetta um það að það verður að vera hægt að selja restina af Íslandsbanka til þess að lækka skuldir ríkissjóðs svo við þurfum ekki að borga þessa óskaplegu vexti af lánunum eins og reyndin er. Það er auðvitað lykilatriði í þessu."
Stjórnarandstaðan hefur kallað eftir rannsóknarnefnd.
„Já sko bara um leið og þetta mál svolítið á flug þá fór stjórnarandstaðan að krefjast þess að stofnuð yrði rannsóknarnefnd til þess að fara yfir málið frá a til ö.“