„Júlí þurfti að fá hring líka svo ég skellti mér á skeljarnar (vol.2) á miðnætti. Gleðilegt ár! Við förum hamingjusöm og peppuð inní ævintýrin sem bíða okkar 2023. Fulla ferð!“ skrifar Reykjavíkurdóttirin Þórdís Björk í færslu á Instagram.
Þórdís og Júlí kynntust í Listaháskóla Íslands þar sem þau voru saman í bekk á leikarabraut. Þau voru þó vinir í langan tíma áður en ástin tók völd. Fyrir rúmu ári síðan festu þau kaup á fallegri íbúð í Vesturbænum þar sem þau búa ásamt drengjum sínum tveimur sem þau eiga úr fyrri samböndum.
Árið 2020 léku Þórdís og Júlí saman í leikritinu Vorið vaknar hjá Leikfélagi Akureyrar. Samkomuhúsið á Akureyri skipar því sérstakan sess í hjörtum þeirra og var það þar sem Júlí skellti sér á skeljarnar síðasta vor.
Þórdís verður áfram með annan fótinn á Akureyri, því fer með hlutverk í sýningunni Chicago sem Leikfélag Akureyrar frumsýnir nú í janúar.
Þórdís og Júlí gáfu nýlega út sína eigin útgáfu af laginu Gamlárskvöld. Textinn fjallar meðal annars um það þegar Júlí gerði heiðarlega tilraun til að kyssa Þórdísi á miðnætti fyrstu áramótin eftir að þau byrjuðu að hittast. Parið flutti lagið í Kryddsíld á Stöð 2 en flutninginn má sjá hér að neðan.