Frá þessu greinir Morgunblaðið og vísar í tölur frá Samgöngustofu.
Þar segir að fjöldi látinna í umferðinni sé sá sami og í fyrra og svipaður og árin tvö á undan en árin 2015 til 2018 hafi banaslys verið mun fleiri.
Þeir fjórir sem létust í flugslysi fórust allir þegar flugvél hrapaði í Þingvallavatn í byrjun febrúar. Um var að ræða flugmann vélarinnar og þrjá farþega, sem voru erlendir ferðamenn.
Leit hófst að vélinni 3. febrúar en hún fannst að kvöldi 4. febrúar og lík hinna látnu 6. febrúar. Þau náðust á land nokkrum dögum síðar en ekki var hægt að sækja vélina fyrr en í apríl.
Tvö banaslys urðu á sjó.
Hið fyrra komst í fréttirnar þegar lík sjómanns fannst í fjörunni við Sólfarið í janúar en hið síðara átti sér stað í byrjun desember, þegar sjómaður féll útbyrðis af fiskiskipi út af Faxaflóa.
Sá er ófundinn.