Enski boltinn

Sungu að Kane hefði brugðist landi sínu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Harry Kane í leik dagsins.
Harry Kane í leik dagsins. Eddie Keogh/Getty Images

Þegar kemur að níðsöngvum um leikmenn ensku úrvalsdeildarinnar í fótbolta er ekkert heilagt. Harry Kane fékk að finna fyrir því í 2-2 jafntefli Brentford og Tottenham Hotspur í dag.

Enska úrvalsdeildin sneri aftur í dag eftir 44 daga frí vegna HM í Katar. Kane var í byrjunarliði Tottenham en hann brenndi af vítaspyrnu þegar England féll úr leik gegn Frakklandi í 8-liða úrslitum HM.

Stuðningsfólk Brentford ákvað að láta Kane heyra það í leik dagsins og söng að hann hefði brugðist landi sínu.

Það virtist sem söngvarnir hefðu áhrif á leikmenn Tottenham en heimaliðið komst 2-0 yfir áður en Kane minnkaði muninn áður en Pierre-Emile Højbjerg jafnaði metin. Kane var svo nálægt því að tryggja sigur Tottenham. Hefði skalli hans endað í netinu en ekki þverslánni hefði hið forna orðatiltæki „sá hlær best sem síðast hlær“ svo sannarlega átt við.

Henry Winter, einn virtasti íþróttablaðamaður Bretlandseyja, tók upp hanskann fyrir Kane.

„Kane hefur aldrei brugðist þjóð sinni. Hann er fyrirliði, fyrirmyndar atvinnumaður og án efa besti framherji Englands í dag. Hann er nýbúinn að jafna markamet Wayne Rooney fyrir enska landsliðið og hjálpar til við að bæta aðstöðu og þjálfun barna. Kane gerir margt fyrir þjóð sína,“ sagði Winter á Twitter síðu sinni.

Kane hefur skorað 13 mörk í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð. Aðeins Erling Braut Håland, framherji Manchester City, hefur skorað fleiri eða 18 talsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×