Enski boltinn

Telur að Håland geti fylgt í fót­spor Messi og Ron­aldo

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þessir tveir ná einstaklega vel saman.
Þessir tveir ná einstaklega vel saman. Matt McNulty/Getty Images

Kevin De Bruyne telur að liðsfélagi sinn, Erling Braut Håland, geti fetað í fótspor Lionel Messi og Cristiano Ronaldo varðandi markaskorun. Norðmaðurinn er nú þegar kominn með tæplega 200 mörk.

Hinn 22 ára gamli Håland hefur verið hreint út sagt frábær á sinni fyrstu leiktíð með Manchester City. Í 19 leikjum til þessa hefur hann skorað 24 mörk.

„Hann hefur nú þegar skorað 200 mörk svo hann ætti að geta skorað 600, 700 eða 800 mörk ef hann heldur sér heilum og heldur áfram að gera það sem hann gerir. Hann er framherji í hæsta gæðaflokki,“ sagði De Bruyne um samherja sinn.

Þó Håland hafi leitt línuna hjá Man City það sem af er leiktíð þá bíður þjálfarateymið, og liðsfélagar hans, eftir að heimsmeistarinn Julián Álvarez springi út. Sá hefur skorað þrjú mörk í ensku úrvalsdeildinni, tvö í Meistaradeild Evrópu og eitt í deildarbikarnm.

„Við sáum strax að Julián væri mjög hæfileikaríkur. Þú veist aldrei hversu lengi leikmenn frá Suður-Ameríku eru að aðlagast. Hann virðist mjög þroskaður og ég er mjög ánægður fyrir hans hönd. Hann hefur verið að spila meira að undanförnu og hefur skorað þónokkur mörk,“ sagði De Bruyne um hinn hreinræktaða framherjann í liði Man City.

Manchester City mætir Leeds United á miðvikudag, 28. desember, í leik sem Man City verður að vinna til að halda í við Arsenal á toppi deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×