Í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að ekki hafi enn verið unnt að losa rútuna þegar tilkynningin var rituð í gærkvöldi. Þó hafi björgunarsveitarbílar komist fram hjá henni.
Þar segir að töluvert hafi verið að gera hjá björgunarsveitum milli Hvolsvallar og Víkur í Mýrdal við að losa fasta bíla í gær eftir að bílstjórar virtu lokunarpósta að vettugi. Um sextíu strandaglópum var komið í hús í gærkvöldi.
Tveir hópar ferðamanna týndust
Þá segir að í eftirmiðdaginn í gær hafi verið óttast um afdrif tveggja hópa ferðamanna sem höfðu farið í göngu frá hótelum sínum í Reynishverfi og villst af leið. Mikið viðbragð hafi verið sett af stað.
Ferðamennirnir höfðu samband við Neyðarlínuna en gátu ekki gert sér grein fyrir hvar þeir voru staðsettir. Þreifandi bylur var kominn um þetta leytið, að því er segir í tilkynningu Landsbjargar.
Undir kvöld komust annar hópurinn inn á hótel í Reynisfjöru og hinn hópurinn inn á nærliggjandi sveitabæ.
Búist er við áframhaldandi illviðri á Suðurlandi í dag og voru snjóbílar og önnur björgunartæki því flutt austur í gær, og verða til taks á svæðinu í dag.