Körfubolti

Elvar Már og Þórir Þorbjarnarson í sigurliðum í dag

Árni Jóhannsson skrifar
Elvar Már flýgur í gegnum háloftin.
Elvar Már flýgur í gegnum háloftin. Vísir/Hulda Margrét

Elvar Már Friðriksson og Þórir Þorbjarnarson stóðu í ströngu með liðum sínum í evrópska körfuboltanum fyrr í dag. Báðir komu þeir einn af varamannabekknum en lögðu lóð sín á vogarskálarnar við að hjálpa liðum sínum að vinna leikina sína.

Elvar Már spilaði rúmar 16 mínútur þegar liðið hans Rytas vann Siauliai eftir framlengdan leik fyrr í dag. Leikurinn endaði 107-101 og var spennandi allan tímann en það voru heimamenn í Rytas sem náðu í sigurinn í Jeep höllinni.

Elvar skoraði 12 stig og hitti úr helming skota sinna. Þá gaf hann þrjár stoðsendingar, stal boltanum þrisvar sinnum, varði eitt skot og skilaði af sér 13 framlagspunktum. Rytas eru eftir leikinn í þriðja sæti Litháísku deildarinnar með átta sigra og þrjú töp. Topp lið Zaalgiris hefur unnið 11 af 12 leikjum sínum.

Í LEB ORO deildinni á Spáni kom Þórir Þorbjarnarson einnig inn af varamannabekknum en hafði góð áhrif á lið sitt í 75-58 sigri Oviedo á Ourense Baloncesto. Þórir lék 19 mínútur af leiknum og skoraði sex stig þar sem hann hitti úr öllum fjórum vítum sínum. Hann náði einnig í tvö fráköst og gaf þrjár stoðsendingar til að hjálpa sínum mönnum við að ná í sigurinn.

Oviedo er í 13. sæti deildarinnar og hefur unnið fjóra af átta leikjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×