Fótbolti

Vanda þrýsti á UEFA sem stofnar vinnuhóp

Sindri Sverrisson skrifar
Vanda Sigurgeirsdóttir hefur nú verið formaður KSÍ í eitt ár.
Vanda Sigurgeirsdóttir hefur nú verið formaður KSÍ í eitt ár. VÍSIR/VILHELM

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður Knattspyrnusambands Íslands, nýtti tækifæri á fundi formanna og framkvæmdastjóra knattspyrnusambanda Evrópu í október til að kalla eftir jafnari þátttöku kynja í nefndum og stjórn UEFA.

Erindi Vöndu virðist hafa borið árangur því samkvæmt frétt á vef KSÍ hefur UEFA nú stofnað vinnuhóp sem ætlað er að skoða málefnið. Vanda er ein af þremur konum í vinnuhópnum sem einnig telur fimm karla.

Á vef KSÍ er bent á að hjá UEFA séu aðeins 52 af 394 nefndarmönnum konur, og að þar af sitji 18 af 52 konum í sérstakri nefnd UEFA um knattspyrnu kvenna.

UEFA sé raunar hlutfallslega með enn færri konur í nefndum og stjórn heldur en FIFA, alþjóða knattspyrnusambandið, þar sem að hlutfallið sé 19% samanborið við 14% hjá UEFA.

Hjá KSÍ eru 47% nefndarmeðlima konur og hjá alþjóða ólympíusambandinu er helmingur nefndarmeðlima konur.

Þrátt fyrir átak KSÍ er það þó enn þannig að aðeins 20% þingfulltrúa, eða 30 af 149, á síðasta ársþingi sambandsins voru konur. Í aðalstjórn KSÍ eru sex karlar og fjórar konur að meðtöldum formanninum Vöndu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×