Ein af stærstu rafmyntarkauphöllum heims óskaði eftir að vera tekið til gjaldþrotameðferðar eftir að viðskiptavinir þess gerðu áhlaup og vildu taka út innistæður sínar þegar efasemdir komu fram um reksturinn fyrr í þessum mánuði.
Sam Bankman-Fried, stofnandi FTX og rafmyntargúrú, steig til hliðar. Skiptastjóri sem tók við fyrirtækinu sagðist aldrei hafa séð aðra eins óráðsíu hjá fyrirtæki og þó hafði hann haft umsjón með því að hreinsa upp eftir fall orkurisans Enron fyrr á þessari öld.
Reuters-fréttastofan segir að opinber gögn á Bamahaeyjum, þar sem FTX var skráð, sýni að fyrirtækið, foreldrar Bankman-Frieds og háttsettir stjórnendur hafi keypt að minnsta kosti nítján fasteignir sem eru metnar á hátt í 121 milljón dollara, jafnvirði meira en 17,3 milljarða íslenskra króna.
Í flestum tilfellum hafi verið um lúxusíbúðir að ræða. Afsöl sýni að íbúðirnar átti að nota til að hýsa „lykilstarfsmenn“. Reuters segist ekki hafa komist að því hver bjó í þeim.
Foreldrar Bankman-Frieds segjast hafa reynt að skila FTX afsali af eign í þeirra nafni frá því áður en fyrirtækið var tekið til gjaldþrotameðferðar. Talsmaður þeirra svaraði ekki spurningum Reuters um hvernig kaupin hefðu verið fjármögnuð og hvort að FTX hefði komið nálægt því. Fyrirtækið sjálft svaraði ekki fyrirspurn um eignirnar.
Talið er að um milljón kröfuhafar séu í leifar FTX en þeir standa frammi fyrir því að tapa milljörðum dollara. Komið hefur fram að Bankman-Fried færði um tíu milljarða dollara út úr FTX til að halda öðru fyrirtæki sínu sem fjárfesti í rafmyntum á floti. Svo virðist sem að um milljarður þess fjár hafi horfið.