Niðurstöður könnunarinnar leiða í ljós að 58% öryrkja búa í eigin húsnæði samanborið við 74% allra fullorðinna. 29 prósent öryrkja eru á leigumarkaði en 13 prósent allra fullorðinna hér á landi.
Þeir örorkulífeyristakar sem eru á leigumarkaði sögðu almennt erfitt að fá leigt húsnæði á almennum markaði og greiða stóran hluta tekna sinna í sinn hlut af rekstri húsnæðisins. Alls sögðust 12% greiða meira en 75% útborgaðra launa en 25% greiða á milli 51% og 75%.
Fjórðungur þátttakenda hafði, á undangengnum 5 árum, leitað að húsnæði til leigu á almennum leigu markaði. Yngstu svarendurnir voru líklegri en hinir eldri til að hafa leitað að húsnæði til leigu. Sömuleiðis voru hlutfallslega fleiri einhleypra en þeirra sem voru í sambúð eða hjónabandi sem höfðu leitað að leiguhúsnæði á almennum leigumarkaði.
Öryrkjar tvöfalt líklegri til að hafa miklar áhyggjur af húsnæðiskostnaði
Helmingur þeirra sem höfðu leitað að húsnæði til leigu sagði að mjög erfitt hefði verið að fá leigt húsnæði á almennum leigumarkaði og 17% sögðu það hafa verið frekar erfitt. Alls höfðu 15% svarenda einhvern tíma búið í félagslegu húsnæði á vegum sveitarfélaga. Af þeim sem bjuggu í eða höfðu einhvern tíma búið í félagslegu húsnæði á vegum sveitarfélaga hafði 41% verið á biðlista í þrjú ár eða lengur áður en húsnæðið fékkst og af þeim 23 einstaklingum sem bjuggu í eða höfðu einhvern tíma búið í húsnæði hjá Brynju hússjóði höfðu sex einstaklingar verið á biðlista í þrjú ár eða lengur áður en húsnæðið fékkst.
Jafnframt kemur fram í skýrslunni að öryrkjar á leigumarkaði eru tvöfalt líklegri en fullorðið fólk alls til að hafa mjög eða frekar miklar áhyggjur af kostnaðinum við rekstur húsnæðis, eða 38% samanborið við 19%.
Könnunin leiðir í ljós að staða fólks sem býr í leiguhúsnæði er almennt verri. Það greiðir hærra hlutfall tekna í rekstur, hefur meiri áhyggjur af kostnaðinum og er líklegara til þess að lenda í vanskilum.