Þetta kemur fram í norskum fjölmiðlum í dag.
ELKO á Íslandi starfar undir sérleyfi frá Elkjøp A/S og er einn fjögurra kostunaraðila útsendinga RÚV í tengslum við heimsmeistaramótið að þessu sinni. Aðspurður um málið segir Óttar Örn Sigurbergsson, framkvæmdastjóri ELKO á Íslandi, að fyrirtækið hafi ekki tekið neina ákvörðun varðandi þeirra auglýsingar í tengslum við útsendingar frá HM á RÚV.
Gríðarmikið hefur verið fjallað um mannréttindabrot í Katar og sér í lagi á verkafólki sem stóð að smíði leikvanga landinu þar sem leikirnir verða spilaðir.
Verða ekki sýnilegir
Í frétt Verdens Gang segir að stjórnendur Elkjøp hafi ákveðið að fyrirtækið verði ekki virkur og sýnilegur kostunaraðili útsendinga frá mótinu. Ákvörðunin nú sé grundvölluð á þeim gildum sem félagið vilji standa fyrir en sömuleiðis að tillit sé tekið til TV2, samstarfsaðila Elkjøp til margra ára. Niðurstaðan hafi verið að virða gerða samninga við TV2 en að gefa hluta auglýsingaplássanna til mannréttindasamtakanna Amnesty.
„Við höfum boðið Amnesty að fylla þau [auglýsingaplássin]. Það þýðir að Amnesty verður sýnilegt á TV2 á meðan á mótinu stendur og að boðskapur þeirra heyrist almennilega,“ segir Madeleine Schøyen Bergly, samskiptastjóri Elkjøp við VG.
Fjórir kostunaraðilar
Kostunaraðilar fyrir útsendingar RÚV vegna heimsmeistaramótsins eru fjórir að þessu sinni – Netgíró, ELKO, Lottó/Getraunir og KIA.
Stjórnendur þeirra norsku sjónvarpsstöðva sem sýna frá HM í norsku sjónvarpi – NRK og TV2 – sögðust hins vegar hafa fundið fyrir því að auglýsendur væru meira hikandi en oft áður vegna umræðunnar um mannréttindabrot í Katar.
Einar Logi Vignisson, framkvæmdastjóri RÚV sölu, sagði stöðuna í tenglum við auglýsingasölu RÚV vegna HM hins vegar í raun vera ágæta þegar Vísir ræddi við hann í byrjun mánaðar.
Hann sagðist þá ekki hafa orðið sérstaklega var við að erfiðara hafi reynst að fá aðila til að auglýsa í tengslum við útsendingar RÚV frá heimsmeistaramótinu. Staðan á sölunni ætti þó eftir að koma betur í ljós þegar nær drægi mótinu.