Danmerkurmeistarar FCK lentu í miklum vandræðum með C-deildarlið Thisted FC á útivelli. Orri Steinn skoraði eina mark FCK í venjulegum leiktíma en staðan að honum loknum var 1-1. Andreas Cornelius kom inn fyrir Orra Stein eftir rúmlega klukkustund og skoraði hann bæði mörk FCK í framlengingunni, lokatölur 3-1.
Ísak Bergmann Jóhannesson var í byrjunarliði FCK en var tekinn af velli í hálfleik. Hákon Arnar Haraldsson var ekki í leikmannahópnum að þessu sinni.
Stefán Teitur var óvænt á varamannabekknum hjá Silkeborg en eflaust var verið að hvíla Skagamanninn öfluga þar sem hann byrjar nær alla leiki liðsins. Hann kom inn á 69. mínútu en aðeins örfáum sekúndum áður hafði Silkeborg komist 2-1 yfir.
Eftir það bætti liðið við einu marki og lauk leiknum með 3-1 sigri Silkeborg. Stefán Teitur og félagar því komnir í 8-liða úrslit bikarkeppninnar líkt og FCK.
Þá spilaði Aron Sigurðarson aðeins fimm mínútur þegar AC Horsens tapaði 1-0 fyrir B-deildarliði Vejle.