Enski boltinn

Stympingar í Skírisskógi: „Aldrei séð vallar­starfs­mann ganga um völlinn í miðri upp­hitun“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mönnum var heitt í hamsi áður en flautað var til leiks í Skírisskógi.
Mönnum var heitt í hamsi áður en flautað var til leiks í Skírisskógi. Reuters

Thomas Frank, þjálfari enska úrvalsdeildarfélagsins Brentford, hefur staðfest að markmannsþjálfari liðsins sé með áverka eftir að lenda upp á kant við vallarstarfsmann Nottingham Forest fyrir leik liðanna í gær, laugardag.

Fyrir leik gærdagsins virtist allt ætla að sjóða upp úr þar sem vallarstarfsmenn Forest voru enn að vinna í vellinum eftir að Brentford var komið út í upphitun. Virðist sem vallarstarfsmaðurinn hafi truflað upphitun Manuel Sotelo, markmannsþjálfara Brentford og fyrrverandi markmannsþjálfara Forest.

Sotelo brást ekki vel við trufluninni og reyndi í kjölfarið að ýta vallarstarfsmenni Forest frá en sá brást illa við og stóðu mennirnir í stympingum eftir það. Hvernig þeirri rimmu lauk er óvíst en samkvæmt Frank er Sotelo með „ummerki“ og félagið er mynd til sönnunar.

„Á öllum mínum tíma í fótbolta, og sérstaklega í ensku úrvalsdeildinni, þá hef ég aldrei, og ég meina aldrei, séð vallarstarfsmann ganga um völlinn í miðri upphitun. Ég veit ekki hvort það er tilviljun eða … það kom mér verulega á óvart. Hef aldrei séð þetta. Ég vona að þeir geri þetta alltaf, líka gegn Liverpool, West Ham og öðrum liðum,“ sagði Frank á blaðamannafundi eftir leik.

Útskýring Forest var sú að starfsmaðurinn hafi aðeins verið að reyna segja leikmönnum Brentford að þeir hefðu hitað of lengi upp í vítateignum. Lið ensku úrvalsdeildarinnar mega aðeins hita ákveðið lengi upp innan vítateigs á áttu markverðir Brentford að hafa farið yfir þann tíma.

Brentford virtist ætla að eiga síðasta orðið þar sem liðið var 2-1 yfir þegar leiktíminn var í þann mund að renna út. Heimamenn jöfnuðu hins vegar þegar sex mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma og til að strá salti í sárin var um sjálfsmark að ræða.

Ekkert hefur heyrst frá ensku úrvalsdeildinni varðandi málið.


Tengdar fréttir

Mögnuðu endur­koma Leeds | For­est jafnaði í blá­lokin

Leeds United og Bournemouth mættust í ensku úrvalsdeildinni í dag. Lauk leiknum með 4-3 sigri Leeds en Bournemouth komst 3-1 yfir. Þá vann Brighton & Hove Albion 3-2 sigur á Úlfunum á meðan Nottingham Forest og Brentford gerðu dramatískt 2-2 jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×