Skoðun

Guðlaugur Þór tók mér opnum örmum

Eiður Welding skrifar

Ég byrjaði ungur í flokknum, reyndar mjög ungur, í aðdraganda Alþingiskosninga árið 2017. Eins og gefur að skilja var þá mikið um að vera eins og oft er í kringum kosningar. Þegar ég gekk inn í Valhöll tók Guðlaugur Þór alveg sérstaklega vel á móti mér, með opnum örmum, og gaf sér tíma til að sýna mér hvernig starfið virkar. Skömmu eftir þessar kosningar, bauð Guðlaugur mér, ásamt fleirum, í Utanríkisráðuneytið og þar sá ég hversu mikið hann brann fyrir sínu starfi.

Sjálfstæðisflokkurinn heldur landsfund núna um helgina og þá kjósum við okkur formann. Ég styð Guðlaug Þór til formennsku og ástæðan er einföld. Guðlaugur Þór hefur allan sinn stjórnmálaferil lagt ríka áherslu á að vera í sambandi við og virkja breiðan hóp fólks innan flokksins. Hann býður fólk velkomið og gefur sér tíma til að tala við alla, hverjir sem þeir eru og hvaðan sem þeir koma. Guðlaugur Þór veit að Sjálfstæðisflokkurinn er ekkert án grasrótarinnar, fólksins í flokknum, sem leggur kapp sitt við að veita forystu flokksins málefnalegt aðhald og stuðning. Hann leitast við að eiga í virku samtali við fólkið í flokknum og fá frá því hugmyndir sem verða að lausnum við málefnum líðandi stundar.

Bjarni Benediktsson hefur verið formaður flokksins í 13 ár. Hann hefur staðið sig ágætlega sem fjármálaráðherra og ríkisfjármálin hafa verið í góðu standi undir hans stjórn. Við í Sjálfstæðisflokknum erum hins vegar ekki að kjósa okkur fjármálaráðherra, við erum að kjósa okkur formann! Því miður hefur Bjarni gleymt grasrótinni okkar, fólkinu í flokknum.

Guðlaugur Þór er að mínu mati einn af okkar flottustu stjórnmálamönnum. Hann hefur verið mér mikil fyrirmynd allar götur síðan ég hitti hann fyrst og kennt mér svo ótrúlega margt. Guðlaugur býr yfir öllum þeim mannkostum sem við viljum sjá í stjórnmálamanni. Hann er heiðarlegur, lausnamiðaður og réttsýnn maður sem er ávallt tilbúinn að hlusta á gagnrýni sem og góðar hugmyndir með opnum hug. Þannig eiga stjórnmálamenn að vera. Þannig einstakling vil ég sem formann Sjálfstæðisflokksins.

Höfundur er stuðningsmaður Guðlaugs Þórs og áhugamaður um farsæla framtíð Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×