Auglýsing um skiptalok Björns birtist í Lögbirtingablaðinu í dag. Þar kemur fram að lýstar kröfur í þrotabúið hljóði upp á tæplega 287 milljónir króna. Engin greiðsla fékkst upp í lýstar kröfur, auk áfallinna vaxta og kostnaðar eftir úrskurðardag gjaldþrotaskipta.
Björn Ingi greindi sjálfur frá því að hann væri orðinn gjaldþrota í febrúar á þessu ári. Hann birti þá færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann sagði gjaldþrotið tengjast rekstri fjölmiðlasamstæðunnar Vefpressunnar. Björn var til að mynda í fyrra dæmdur til að greiða þrotabúi samsteypunnar áttatíu milljónir króna.
„Ég tapaði öllum mínum eigum á þessu ævintýri og það var mikill lærdómur. Er eftir margra ára varnarbaráttu orðinn málkunnugur fleiri lögfræðingum og stefnuvottum en gott getur talist, þótt flest sé það mikið sómafólk og bara að vinna vinnuna sína, og það verður kannski bara frelsi að setja þetta dæmi alltsaman á bak við sig,“ skrifaði hann í téðri færslu.
Björn Ingi er í dag ritstjóri vefmiðilsins Viljans. Sá miðill hefur þó ekki verið virkur um nokkuð skeið, síðasta færslan birtist fyrir rúmum sex vikum síðan.
Björn hefur verið í flokki tekjuhæstu fjölmiðlamanna landsins síðustu tvö ár. Í tekjublaði DV árið 2021 kom fram að Björn hafi verið með rétt rúmar fjórar milljónir króna á mánuði árið 2020. Í tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í ár kemur fram að Björn hafi verið með 4,5 milljónir króna á mánuði árið 2021.