Haukar voru ekki í miklum vandræðum í Kópavogi en sóknarleikur Breiðabliks var hreinlega ekki til staðar í fyrsta leikhluta. Blikar skoruðu aðeins tíu stig og voru 17 stigum undir þegar honum loks lauk. Munurinn var 16 stig er flautað var til fyrri hálfleiks en á endanum unnu Haukar 20 stiga sigur, lokatölur 54-74.
Sanja Orozovic var stigahæst í liði Blika með 20 stig á meðan Eva Margrét Kristjánsdóttir skoraði 16 stig í liði Hauka og tók 14 fráköst.
Sama var upp á teningnum í Grafarvogi en sóknarleikur Fjölnis var þó töluvert betri en hjá Blikum. Hins vegar var sóknarleikur gestanna upp á tíu og skoruðu þær svo gott sem að vild. Fór það svo að Keflavík vann öruggan 19 stiga sigur, lokatölur 72-91.
Taylor Dominique Jones var stigahæst í liði Fjölnis með 17 stig ásamt því að taka 15 fráköst. Anna Ingunn Svansdóttir var stigahæst í liði gestanna með 23 stig á meðan Daniela Wallen Morillo skoraði 18 stig og tók 15 fráköst.
Eftir leiki kvöldsins er Keflavík með fullt hús stiga á toppi deildarinnar að loknum sjö umferðum. Haukar eru í öðru sæti með sex sigra og eitt tap. Breiðablik og Fjölnir hafa bæði unnið tvo leiki og tapað fimm til þessa.