Skoðun

Ekki vera ras­isti á Hrekkja­vökunni

Þórarinn Hjartarson skrifar

Hrekkjavaka er hátíð af írskum uppruna sem Íslendingar hafa undanfarin ár gert að sinni. Í tilefni af því er mikilvægt að minna á að menning annarra er ekki búningur.

Frelsi í búningavali býður þeirri hættu heim að fólk telji sér í trú um að það sé mögulegt að verða hluti af kynþætti sem það hefur hvorki líffræðilega né menningarlega burði til þess að verða. Það heitir að fremja menningarnám.

Það er mikilvægt að fólk sé meðvitað og beri virðingu fyrir menningu annarra. Í því felst að aðgreina kynþætti á viðeigandi máta. Hvítir klæði sig ekki eins og Pocahontas eða Black Panther, að asískt fólk klæði sig ekki eins og Superman eða Batman og að þeldökkir klæði sig ekki upp sem persónur úr Frozen eða Rick and Morty.

Nú virðast þeir hópar sem eru fórnarlömb menningarnáms ekki telja þetta vera vandamál. Það er sökum þess að hvítþvottur nýlenduríkjanna hefur seytlað inn í menningarheim fórnarlambanna og valdið þeirri viðteknu og varhugaverðu hugmynd að það sé í lagi að klæða sig eins og maður vill. Því er sérstaklega mikilvægt að hvítt fólk vekji athygli á þessu vandamáli hvarvetna á samfélagsmiðlum þar sem þau geta.

Fólk þarf að gera sér grein fyrir því að manneskjan sem er vanvirt á þennan máta getur aldrei farið úr sínum búning. Það er því mikilvægt að fólk sé með á hreinu hvaða hópi það tilheyrir og hvaða hópi það tilheyrir ekki, og mun aldrei tilheyra.

Munum að klæðast á hrekkjavökunni einvörðungu persónum sem tilheyra sama kynþætti og menningarheimi og við sjálf. Ekki klæða þig upp eins og rasisti á Hrekkjarvökunni. Það er árið 2022. Gerum betur.

Höfundur er þáttastjórnandi hlaðvarpsins Ein pæling.




Skoðun

Sjá meira


×