Að því er kemur fram á vef Reykjavíkurborgar er verkefnið að byrja í framkvæmd en til stendur að því ljúki í byrjun desember. Frumathugun fór af stað í lok síðasta árs og í febrúar var hafist handa við hönnun og áætlanagerð sem síðan lauk í maí.
Smáhýsin eru hluti hugmyndafræði velferðarsviðs sem er kölluð „húsnæði fyrst“ og er hugsuð til að hjálpa fólki sem hefur verið heimilislaust og hefur miklar þjónustuþarfir.

Íbúar hafa orðið varir við framkvæmdir á svæðinu en einn íbúi vekur athygli á málinu á hverfasíðu Langholtshverfis á Facebook. Er það gagnrýnt að aldrei hafi verið kynning á verkefninu frá Reykjavíkurborg líkt og íbúar hafi óskað eftir. Þá hafi svæðið geta nýst fyrir uppbyggingu skóla og leikskólastarfs í hverfinu.
Íbúum gefist kostur að koma athugasemdum á framfæri
„Ég held að það ætti ekki að koma neinum á óvart að þarna rísi hús,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar, en hún segir það hafa staðið til árum saman að koma smáhýsum fyrir í Laugardalnum.
Þá segir hún að samráð hafi verið haft við íbúa. „Þetta var auglýst eins og aðrar breytingar og fólki gefið kostur á að koma á framfæri athugasemdum og þeim var svarað,“ segir Heiða.
Síðast voru umrædd hús í umræðunni í október í fyrra þegar þáverandi borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðust gegn áformum meirihlutans og sögðu að Laugardalurinn ætti að „fá að vera í friði fyrir íbúðaáformum.
Heiða segist skilja að skiptar skoðanir séu á húsunum en ítrekar að hlustað hafi verið á allar raddir og sjónarmið áður en ákvörðunin var tekin. Til stendur að koma fleiri smáhúsum fyrir víðs vegar í Reykjavík og hafa nokkur þegar risið.
„Við ætlum að koma öllum þessum húsum fyrir og vonumst til þess að Reykvíkingar séu tilbúnir til að standa með okkur í þessu verkefni, að allir eigi húsnæði,“ segir Heiða.