Íslenski boltinn

Skarð fyrir skildi hjá súrum Stjörnumönnum

Valur Páll Eiríksson skrifar
Emil Atlason er úr leik.
Emil Atlason er úr leik. Vísir/Hulda Margrét

Stjarnan hefur ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu í Bestu deild karla í fótbolta. Liðið tapaði fyrir KR í gær og hefur tapað fimm leikjum í röð. Nú er ljóst að liðið verður án síns helsta framherja það sem eftir lifir leiktíðar.

Frá því að Stjarnan vann frækinn 5-2 heimasigur á toppliði Breiðabliks þann 7. ágúst síðastliðinn hefur allt gengið á afturfótunum hjá liðinu. Stjarnan tapaði 6-1 fyrir Val í næsta leik og síðan hafa töpin hrannast upp.

Eftir sigurinn á Breiðabliki var Stjarnan með 28 stig í fjórða sæti deildarinnar, aðeins tveimur á eftir KA og Víkingi sem voru öðru og þriðja sæti. Í dag er liðið enn með 28 stig eftir fimm tapleiki í röð og á Stjarnan á hættu að enda í neðri hluta deildarinnar þegar henni verður skipt upp í tvennt um næstu helgi.

Í ofanálag verður Stjarnan án aðalframherja síns, Emils Atlasonar, það sem eftir lifir leiktíðar. Emil fór í aðgerð vegna hnémeiðsla í síðustu viku og staðfesti við Fótbolti.net í dag að afar ólíklegt sé að hann spili meira á tímabilinu.

Emil hefur farið mikinn í sumar og skorað ellefu mörk í 19 leikjum í deildinni.

Stjarnan er í sjötta sæti og mætir FH í lokaumferð Bestu deildarinnar fyrir skiptingu sem fer fram næstu helgi. Tapist sá leikur dugar Fram og Keflavík, sem eru í sætunum fyrir neðan með 25 stig, sigur til að fara upp fyrir Stjörnuna svo lengi sem liðin bæta markatölu Garðbæinga.

Fram og Keflavík mætast í lokaumferðinni en ef liðin gera jafntefli skiptir engu fyrir Stjörnuna hvernig leikur þeirra fer upp á að enda í sjötta sæti, og þar með efri hluta deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×