Innlent

Matvælaráðherra borðar mikið af lambakjöti

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Það fór vel á með fjallkónginum og Matvælaráðherra í Skaftholtsréttum í dag.
Það fór vel á með fjallkónginum og Matvælaráðherra í Skaftholtsréttum í dag. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Það eru stórir réttardagar á Suðurlandi þessa dagana því réttað var í Hrunaréttum og Skafholtsréttum í dag og í Skeiðaréttum og Tungnaréttum á morgun. Matvælaráðherra, sem segist borða mikið af lambakjöti dró í dilka í Skaftholtsréttum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Hrunaréttir voru haldnar fyrir hádegi og Skaftholtsréttir eftir hádegi en Skeiða- og Tungnaréttir verða báðar fyrir hádegi á morgun. Það hefur verið mikill hiti á fjallmönnum og fé í smalamennsku síðustu daga en hitinn fór til dæmis í 17 til 18 gráður í gær.

„Vænstu lömbin áttu erfitt með að labba og vænsta féð átti erfitt með að labba niður af fjalli líka. Það er alltaf eitthvað, sem gefst upp í svona miklum hita,“ segir Guðmundur Árnason fjallkóngur í Skaftholtsréttum.

Um 1700 fjár voru í réttunum en fé er alltaf að fækka á bæjunum.Magnús Hlynur Hreiðarsson

„Mér finnst þetta alltaf með því allra skemmtilegasta, sem maður gerir. Þetta er það, sem markar upphaf haustsins, það eru réttirnar á Íslandi og líka bara að fólk geti komið saman eftir í rauninni tveggja ára aðskilnað,“ segir Svandís Svavarsdóttir, Matvælaráðherra, sem var í Skaftholtsréttum í dag.

Ertu sveitakona?

„Já, ég var mikið í sveit, sem krakki þannig að ég kannast við ýmislegt í sveitinni.“

Svandís tók sig vel út með þennan hrút.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Svandís dró nokkur lömb í dilka. Hún segist hafa miklar áhyggjur af stöðu sauðfjárbænda og leggur á sama tíma áherslu á að það þurfi að huga virkilega vel að því í búvörusamningum og í allri þeirra umgjörð að afkoman sé í lagi.

Hvað með sjálfan þig, borðar þú mikið af lambakjöti?

„Já, já, ég geri það með öllu tilheyrandi,“ segir ráðherra hlægjandi.

Vel gekk að draga í dilka.Magnús Hlynur Hreiðarsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×