Orkukostnaður hefur hækkað víða á meginlandi Evrópu á seinustu misserum, þar er innrás Rússlands í Úkraínu sögð hafa mikil áhrif. Í kjölfar innrásarinnar hefur rússneska orkufyrirtækið Gazprom flutt lítið gas til Evrópu í gegnum Nord Stream 1 gasleiðsluna. Nú hefur flæðið verið stöðvað algjörlega en orkufyrirtækið bar fyrir sig olíuleka við þjöppustöð og er óvíst hvenær gasflutningar hefjast á ný.
Evrópa hefur svo sannarlega fundið fyrir þessum gasvandræðum en Íslendingar á meginlandinu hafa margir hverjir upplifað mikla hækkun á orkukostnaði á eigin skinni. Eiríkur Ragnarsson sem er búsettur í Marburg greindi frá því í samtali við fréttastofu á dögunum að hann hafi gripið til þess að birgja sig upp af timbri fyrir veturinn til þess að komast hjá því að nota gas.
Yfirlýsingin frá umræddu bakarafélagi í Hollandi kemur því ekki á óvart en félagið inniheldur 1600 meðlimi. Einhverjir innan félagsins eru sagðir hafa upplifað tífalda hækkun á orkukostnaði. Mörg rótgróin fjölskyldufyrirtæki séu á barmi þess að þurfa að skella í lás vegna ástandsins. Reuters greinir frá þessu.
Orkusamningar sumra bakaría séu að renna sitt skeið og megi sum búast við því að orkukostnaðurinn hækki úr 3.000 evrum í 30.000 evrur á mánuði eða úr 432 þúsund krónum í 4,3 milljónir króna á mánuði.
Rafmagnsofnar í stað þeirra sem séu gasknúnir séu ekki möguleiki fyrir mörg stærri bakarí vegna slæmrar stöðu innviða. Ekki sé heldur hægt að láta hækkun sem þessa koma út í hækkuðu verði á brauði. Bakarí treysta því nú á að hollensk stjórnvöld grípi inn í vegna kostnaðarins sem fyrst, til dæmis með einhverskonar verðþaki.