Tíska og hönnun

„Rokkstjörnustælar og bling“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Júlía Grönvaldt er viðmælandi vikunnar í Tískutali.
Júlía Grönvaldt er viðmælandi vikunnar í Tískutali. Instagram @juliagronvaldt

Litagleði, gelluvíbrur og rokkstjörnu stælar einkenna Júlíu Grönvaldt, sem starfar sem listrænn stjórnandi og stílisti við fjölbreytt verkefni tengd tísku, menningu og listum. Hún lærði tískumiðlun í Flórens á Ítalíu en flutti heim eftir námið til að vinna sem sjálfstætt starfandi og elskar að geta notað ástríðu sína á tísku í starfi. Júlía er viðmælandi vikunnar í Tískutali.

Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?

Það er svo margt við tísku sem ég elska og ég hef ekkert smá gaman að pæla í menningaráhrifunum sem hún hefur. 

Ég hef lengi verið heltekin af poppkúltúr og tónlist og kynntist þar að leiðandi heimi tískunnar. 

Ég byrjaði mjög ung að pæla í því hvernig tónlistarmenn og aðrar stjörnur klæddu sig, sem hafði sjúklega mikil áhrif á stílinn minn og sjálfsöruggið mitt. Það var ekki fyrr en ég fór í háskóla sem ég byrjaði að kunna að meta tískuna sem listform og þar að leiðandi gat ég notað ástríðuna mína á tísku í það sem ég geri í dag.

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?

Flíkin sem ég held hvað mest upp á er síður gallajakki frá Guess Jeans sem ég fann á deadstock markaði í Flórens á Ítalíu - hann átti alveg að kosta 400 evrur en ég fékk hann á 40 evrur. Hann er fullkominn í sniðinu og gallaefnið er upplitað sem gefur honum svo skemmtilegt lúkk. 

Hann er alveg einstakur og ég er algjör gella í honum.

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?

Já ég get eytt endalaust af tíma í að velja föt og hef mjög gaman af því að setja saman outfit. Ég er mjög mikill maximalisti og finnst gaman að prófa að setja saman mismunandi liti, áferðir og mynstur. Svo hendi ég helst helling af aukahlutum og skartgripum á mig. 

Smá tímafrekt ferli en það er bara partur af lífsstílnum.

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?

Rokkstjörnu stælar og bling. Ég er mjög insperuð af tónlistarmönnum og fleiri áhugaverðum listamönnum sem hafa frekar pönkaðann karakter. Ég leita þar að leiðandi í meiri vintage stíl og versla nánast einungis notuð föt. Mér finnst það gera stílinn minn einstakari og ég reyni að minni bestu getu að forðast tísku trend.

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?

Já, stíllinn minn hefur breyst ekkert smá mikið yfir árin. Ég hef alltaf verið frekar óhrædd við að prófa mig áfram og hef þá gengið í gegnum ýmis tímabil, bæði slæm og góð.

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?

Ég sæki helst innblástur frá allskonar fólki sem mér finnst alveg sjúklega nett. 

Þá er það ekki endilega fólk sem klæðist flottustu flíkunum heldur frekar orkan þeirra og hvernig þau bera sig.

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?

Ég er mjög ákveðin í því að setja engar reglur þegar það kemur að klæðaburði. 

Allt passar saman og allt gengur upp þegar maður klæðir sig, ég tel það vera skemmtilegra og meira frelsandi viðhorf.

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?

Eftirminnilegasta flíkin er örugglega vintage, krókódíla leður kúrekastígvélin mín sem ég keypti á markaði sem var haldið í eldhúsinu hjá einhverjum meistara út á Ítalíu. Ég þrammaði á þeim um hásumar á tískuvikunni í Flórens og fékk svo mikið hrós fyrir þau. Leið eins og mestu gellu í heimi.

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?

Mitt besta ráð er að forðast að fylgja tískutrendum og eyða meiri tíma í að þróa sinn persónulega stíl.


Tengdar fréttir

„Munur á því að fá innblástur og að stela hugmyndum annarra“

Diana Rós Hanh Breckmann er sjálfstætt starfandi tískustílisti sem hefur alltaf leyft sér að prófa og þróa alls konar stíla. Hún velur sér föt samkvæmt skapi og stemningu og er hrifin af austur asíska götustílnum í bland við metal fíling. Diana Rós er viðmælandi vikunnar í Tískutali.

Í of áberandi kjól fyrir Versali

Brynja Kúla Guðmundsdóttir er óhrædd við að fara eigin leiðir í fatavali og lýsir stíl sínum sem áberandi og litríkum. Hún segir ónauðsynlegt að takmarka sig við einhvern einn stíl og að engar reglur gildi í leik tískunnar. Brynja Kúla er viðmælandi vikunnar í Tískutali.

„Smitandi þegar fólk er ánægt með klæðaburðinn sinn“

Elma Dís Árnadóttir finnur fyrir mikilli hamingju þegar hún klæðist litríkum og glitrandi flíkum og segir stílinn sinn hafa þróast með sér í gegnum árin. Henni finnst mikilvægast að fólk sé samkvæmt sjálfu sér í klæðaburði og elskar að sjá það klæða sig eins og þeim sjálfum finnst flott. Elma Dís er viðmælandi vikunnar í Tískutali.

„Fyrir mig er þetta hugarleikfimi“

Ármann Reynisson er mikill lífskúnstner sem hefur bæði áhuga og þekkingu á tísku og klæðaburði og segir góða hugarleikfimi að setja saman flíkur fyrir hin ýmsu tilefni. Ármann hefur ferðast víða um heiminn og skrifað tuttugu og tvær vinjettubækur en í október næstkomandi kemur tuttugasta og önnur bókin út. Hann hefur gaman að því að klæða sig upp fyrir hin ýmsu tilefni, er alltaf snyrtilegur til fara og samkvæmur sjálfum sér. Hann bjó um tíma í London þar sem hann lagði stund á viðskiptanám og segir menningarlíf borgarinnar ekki hafa verið síðri lærdóm. Ármann Reynisson bauð blaðamanni í kaffi og veitti innsýn í fataskáp sinn sem býr yfir fataúrvali sem spannar um fjörutíu ár. Hann er viðmælandi vikunnar í Tískutali.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.