Jón Dagur skoraði einkar glæsilegt mark strax á 19. mínútu en hann tók þá langa sendingu Mousa Al-Tamari á bringuna áður en hann afgreiddi knöttinn snyrtilega í netið. Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks og gestirnir því yfir er síðari hálfleikur hófst.
Heimamenn jöfnuðu metin áður en Al-Tamari kom gestunum aftur yfir. Stuttu síðar var Jón Dagur tekinn af velli er Leuven reyndi að halda múra fyrir eigið mark í von um að halda í stigin þrjú.
Það gekk ekki þar sem lánsmaðurinn Fabio Silva jafnaði fyrir heimaliðið en hann er í eigu enska úrvalsdeildarfélagsins Wolves. Lokatölur 2-2 og liðin þurftu því að sætta sig við eitt stig hvort.
Leuven er í 4. sæti með 13 stig eftir sjö leiki á meðan Anderlecht er í 6. sæti með 10 stig.