Innherji

Fjár­festa­kynning gaf eftir­litinu á­stæðu til í­hlutunar

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Forsvarsmenn Haga og Eldum rétt.
Forsvarsmenn Haga og Eldum rétt.

Samkeppniseftirlitið telur að matarpakkafélagið Eldum rétt sé mögulegur keppinautur Haga á dagvörumarkaði og sömuleiðis að Hagar séu mögulegur keppinautur á markaðinum fyrir samsetta matarpakka. Þessi ályktun, sem helgast meðal annars af atriðum í fjárfestakynningu frá því í október 2021, kemur fram í frummati Samkeppniseftirlitsins á samruna fyrirtækjanna tveggja. 

Hagar tilkynntu í mars um að samkomulag hefði náðst um kaup smásölufyrirtækisins á öllu hlutafé Eldum rétt. Eftir umfangsmikla rannsókn á samkeppnislegum áhrifum samrunans, sem fól meðal annars í sér neytendakönnun á meðal viðskiptavina matarpakkafyrirtækja, er það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að samruni Haga og Eldum rétt leiði til styrkingar á markaðsráðandi stöðu fyrirtækjanna á mörkuðunum sem þau starfa á. Þannig sé um að ræða samruna tveggja markaðsráðandi fyrirtækja á tengdum mörkuðum.

„Enn fremur er það frummat Samkeppniseftirlitsins að Eldum rétt sé mögulegur keppinautur Haga á dagvörumarkaði og sömuleiðis að Hagar séu mögulegur keppinautur Eldum rétt á líklegum markaði fyrir samsetta matarpakka. Það er frummat Samkeppniseftirlitsins að samruninn feli í sér samruna náinna keppinauta og jafnframt að Eldum rétt sé mikilvægur keppinautur Haga á dagvörumarkaði,“ segir í frummatinu.

Þá telur eftirlitið að sameinað félag sé líklegt til að geta hindrað stækkun keppinauta sinnaog að talsverðar aðgangshindranir séu inn á markaðina sem fyrirtækin tvö starfa á.

Hvernig að einhverjar hugrenningar um að selja eftirrétti, krydd, salt og olíur með matarpökkun Eldum rétt geti falið í sér ráðagerðir um að hefja samkeppni á matvörumarkaði er óskiljanlegt með öllu

Í andmælabréfi Haga er bent á að sú ályktun Samkeppniseftirlitsins að fyrirtækin séu mögulegir keppinautar sé byggð á fjárfestakynningu fyrirtækjaráðgjafar Landsbankans frá október 2021. Í kynningunni komu fram hugmyndir að frekari vöruþróun fyrir þá matarpakka sem Eldum rétt býður upp á, auk þess sem vöruúrval Eldum rétt hafi aukist upp á síðkastið. Var meðal annars minnst á eftirrétti, brauð, hráefni til eldunar á morgunmat og ýmiskonar matvörur til eldamennsku

Í fyrsta lagi þarf að taka fram að ekki er um innahúsgagn að ræða, hvorki frá Eldum rétt né Högum, heldur fjárfestakynningu fyrirtækjaráðgjafar,“ segir í andmælabréfinu.

Að mati Haga hafa þessi gögn enga þýðingu við að varpa ljósi á áætlanir Eldum rétt fyrir samrunann, eða mat á því hvort Eldum rétt hafi verið mögulegur keppinautur Haga á dagvörumarkaði.

Einnig er komið inn á þetta atriði í andmælabréfi Eldum rétt. „Hvernig að einhverjar hugrenningar um að selja eftirrétti, krydd, salt og olíur með matarpökkun Eldum rétt geti falið í sér ráðagerðir um að hefja samkeppni á matvörumarkaði er óskiljanlegt með öllu,“ segir í bréfi matarpakkafélagsins.

Forsvarsmenn fyrirtækjanna hafa óskað eftir viðræðum við í því skyni að ræða nánar skilyrði fyrir samrunanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×