EM í hópfimleikum verður haldið í Lúxemborg 14.-17. september. Ísland sendir fimm lið til leiks, einu fleira en á EM í Portúgal í fyrra. Íslendingar tefla fram karla- og kvennaliði í fullorðinsflokki og þremur liðum í unglingaflokki; stúlkna- og drengjaliði og blönduðu liði. Ísland var ekki með drengjalið á síðasta Evrópumóti.
Sem fyrr sagði vann kvennalið Íslands til gullverðlauna á EM í fyrra. Íslendingar fengu jafn háa einkunn og Svíar en vann fleiri áhöld. Þetta var fyrsti Evrópumeistaratitill Íslands frá 2012.
Kvennalið Íslands í hópfimleikum var valið lið ársins af Samtökum íþróttafréttamanna í fyrra og Kolbrún Þöll Þorradóttir var í 2. sæti í valinu á Íþróttamanni ársins. Hún var valin í úrvalslið EM ásamt Ástu Kristinsdóttur og Helga Laxdal Aðalgeirssyni. Auður Helga Halldórsdóttir var valin efnilegasti keppandi mótsins.
Níu af þrettán í kvennaliði Íslands að þessu sinni koma úr röðum Íslands- og bikarmeistara Stjörnunnar, þrjár úr Gerplu og ein úr Selfossi. Í karlaliði Íslands eru ellefu af tólf úr Stjörnunni.
Karla- og stúlknalið Íslands unnu silfur á EM í fyrra og blandað lið í unglingaflokki brons.
Íslensku liðin hafa æft saman síðan í júní. Æfingamót fyrir EM verður haldið í Ásgarði í Garðabæ 27. ágúst.
Lið Íslands á EM í hópfimleikum 2022 má sjá með því að smella hér, eða hér fyrir neðan.