Rajapaksa sendi í dag tölvupóst til forseta þingsins í Srí Lanka þar sem hann tilkynnti um afsögnina. Í fyrradag flaug hann til Maldíveyja og þaðan til Singapúr þar sem hann dvelur þessa stundina.
Talið er að Rajapaksa hafi beðið með það að segja af sér þar til að hann væri kominn úr landi til að forðast það að vera handtekinn. Samkvæmt lögum í Srí Lanka má ekki handtaka sitjandi forseta en Rajapaksa er grunaður um mikla spillingu.
Íbúar Srí Lanka fögnuðu margir hverjir á götum úti í dag eftir að fregnir bárust af afsögn forsetans.
„Við erum gífurlega hamingjusöm en einnig fegin að geta fengið pásu og lifað okkar eðlilega lífi aftur,“ segir Viraga Perera, íbúi Colombo í Srí Lanka, í samtali við BBC. Seinustu daga hafa milljónir manna mótmælt forsetanum.
Utanríkisráðherrann, Ranil Wickremesinghe, mun nú taka við sem sitjandi forseti og hefur hann þrjátíu daga til að öðlast stuðning meirihluta þingsins. Ef honum tekst það ekki verða haldnar kosningar.