Sidekick tryggði sér 55 milljónir Bandaríkjadala í vor, jafnvirði um 7,8 milljarða króna miðað við núverandi gengi, í fjármögnunarumferð sem var leidd af Novator Ventures. Fyrirtækið var þá verðmetið á hátt í 350 milljónir dala, eða sem nemur 49 milljörðum króna.
Fjárfestingabankinn Fossar, ráðgjafi Sidekick Health, hefur samkvæmt heimildum Innherja haft samband við valda fjárfesta þar sem athugað er með áhuga á að taka þátt í hlutafjáraukningu sem gæti numið allt að 25 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði um 3,5 milljarða króna.
Kannaður var áhugi fjárfesta á því að kaupa hlutafé á sama gengi og í síðustu fjármögnunarumferð þegar fyrirtækið var, eins og fyrr sagði, verðmetið á hátt í 350 milljónir dala. Á meðan hlutafjáraukningunni stóð fann fyrirtækið fyrir áhuga af hálfu innlendra einkafjárfesta en einnig, eftir því sem Innherji kemst næst, af hálfu stofnanafjárfesta á borð við sjóðastýringafyrirtækið Stefni. Heilsutæknifyrirtækið, sem er vel fjármagnað eftir hlutafjáraukninguna eins og stendur, hefur hins vegar ekki tekið ákvörðun um hvort það láti af því verða af því að selja innlendum fjárfestum hlut á næstunni.
Samtals hefur Sidekick sótt rúmlega tíu milljarða króna til innlendra og erlendra vísisjóða á tæpum tveimur árum til að styðja við vöxt félagsins í Evrópu og Bandaríkjunum, en félagið hefur nú einnig sett upp starfstöðvar í Berlín, Boston og Stokkhólmi.
Sidekick þróar heilbrigðismeðferðir til að bæta heilsu fólks með ýmsa langvinna sjúkdóma svo sem hjarta- og æðasjúkdóma, bólgusjúkdóma og krabbamein. Fyrirtækið starfar einkum með alþjóðlegum lyfjafyrirtækjum þar sem lausnin hefur verið samþætt lyfjameðferðum með góðum árangri, auk þess sem fyrirtækið vinnur með veitendum sjúkratrygginga í Bandaríkjunum.