Á síðustu leiktíð vann Rooney þrekvirki með Derby County og var hársbreidd frá því að halda liðinu upp í ensku B-deildinni þrátt fyrir gríðarlega erfiðar aðstæður. Raunar hefði liðið haldið sér uppi hefðu ekki verið tekin af því samtals 21 stig sökum fjárhagsvandræða þess.
Rooney sagði svo upp sem þjálfari liðsins í sumar en Hrútarnir munu leika í ensku C-deildinni á næstu leiktíð. Í stað þess að sitja heima og bíða eftir starfi hefur Rooney ákveðið að róa á gömul mið. Hann er mættur til Washington og verður samkvæmt miðlum vestanhafs tilkynntur sem nýr þjálfari DC United innan tíðar.
Wayne Rooney arrives at Dulles #dcu pic.twitter.com/trPgYCohIA
— Steven Goff (@SoccerInsider) July 11, 2022
Þar bíður hans annað erfitt verkefni en DC United tapaði 7-0 gegn Philadelphia Union á föstudaginn var. Liðið er í næst neðsta sæti Austurdeildar með aðeins 17 stig að loknum 17 leikjum.
Ásamt því að spila með DC United þá spilaði hinn 36 ára gamli Wayne Rooney með Manchester United, Everton og Derby á ferli sínum. Þá spilaði hann 120 leiki fyrir Englands hönd og skoraði í þeim 53 mörk.