Hinn 33 ára gamli Alfreð lék með Augsburg í Þýskalandi á síðustu leiktíð en samningur hans rann út í sumar og er framherjanum því frjálst að semja við hvaða lið sem er. Hann var í viðræðum við Hammarby í Svíþjóð nýverið en er nú mættur til æfinga í Danmörku.
Danski vefurinn Bold greindi frá að Alfreð væri nú að æfa með nýliðum Lyngby en liðið flaug upp í dönsku úrvalsdeildina á fyrsta tímabili Freys. Þekkjast þeir ágætlega frá því að Freyr var aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins en Alfreð hefur spilað 61 A-landsleik fyrir Íslands hönd.
Lyngby mætir Bröndby í dag, þriðjudag, en Alfreð er ekki meðal leikmanna liðsins í þeim leik. Í frétt Bold kemur hins vegar fram að hann gæti spilað með Lyngby er liðið mætir HB Köge á föstudag.
"Vi vil teste nogle taktiske elementer af"
— Lyngby Boldklub (@LyngbyBoldklub) July 5, 2022
Vi tester formen af mod Brøndby IF ved frokosttid i dag - se truppen og hør fra Freyr Alexandersson herunder #SammenforLyngbyhttps://t.co/LmhrVqFovA
Lærisveinar Freys eru í óðaönn að undirbúa sig fyrir komandi tímabil en liðið mætir Silkeborg í fyrstu umferð dönsku úrvalsdeildarinnar þann 17. júlí næstkomandi.
Alls var Alfreð í sex ár hjá Augsburg en hann hefur komið víða við á atvinnumannaferli sínum. Alfreð hefur spilað á Spáni með Real Sociedad, í Grikklandi með Olympiacos, með Heerenveen í Hollandi, Helsingborg í Svíþjóð og Lokeren í Belgíu. Hver veit nema Lyngby í Danmörku sé næst á dagskrá.