Sport

Stutt gaman hjá Serenu Williams á Wimbledon: Ég gaf allt sem ég átti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Serena Williams er úr leik á Wimbledon mótinu í tennis eftir tap í fyrstu umferð.
Serena Williams er úr leik á Wimbledon mótinu í tennis eftir tap í fyrstu umferð. AP/Alberto Pezzali

Endurkoma Serenu Williams endaði strax í fyrsta leik þegar goðsögnin tapaði í nótt á móti Harmony Tan í fyrstu umferð Wimbledon risamótsins í tennis.

Þetta var fyrsti tennisleikur Serenu í 364 daga og hún var ryðguð en inn á milli mátti sjá tilþrif sem hafa skilað henni sigri í 23 risamótum á ferlinum. Á endanum þurfti hún að sætta sig við svekkjandi tap og að draumur hennar um 24. risatitilinn hafi endað snögglega.

„Ég gaf allt sem ég átti í dag. Kannski hefði ég getað skilað meiru á morgun eða fyrir viku síðan. Í dag var þetta það sem ég gat. Á einhverjum tímapunkti þá verður þú bara að sætta þig við þetta og það er það eina sem ég get gert. Ég get ekki breytt tímanum,“ sagði Serena Williams dramatísk á blaðamannafundi eftir leikinn.

Hún sýndi hetjulega baráttu en tókst ekki að landa sigri. Leikurinn var mjög spennandi og endaði í framlengdu úrslitasetti. Harmony Tan vann 7-5, 1-6, 7-6 (10-7) í leik sem tók meira en þrjá klukkutíma.

Harmony Tan er 24 ára gömul og í 115. sæti á heimslistanum. Þetta var hennar fyrsti leikur á ferlinum í aðalkeppni Wimbledon mótsins.

Serena vildi ekkert gefa upp um framhaldið hjá sér.

„Það er spurning sem ég get ekki svarað. Ég veit það ekki. Hver veit, kannski birtist ég einhvern tímann aftur,“ sagði Serena.

Þetta var hennar fyrsti leikur síðan að hún hætti leik vegna meiðsla í fyrsta umferð á All England Club mótinu í fyrra. Hún hafði þá tognað aftan í læri. Hún náði sér ekki af þeim meiðslum fyrir opna bandaríska mótið.

Þetta var aðeins í þriðja sinn í 80 risamótum þar sem Serena Williams dettur út í fyrstu umferð.

„Þetta er draumur fyrir mig því ég sá Serenu í sjónvarpinu þegar ég var ung. Þjálfarinn minn, Nathalie Tauziat, keppti við hana fyrir tuttugu árum. Hún er goðsögn enda búin að vinna 23 risamót. Ég var hrædd við að mæta henni en samt mjög ánægð að vera hér,“ sagði Harmony Tan sem mætir hinni spænsku Sorribes Tormo í næstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×