Hér erum við að tala um nokkrar gamlar og flottar dráttarvélar á bænum Grund á Reykhólum í Reykhólasveit. Þar er Kristján Steinn, 14 ára allt í öllu þegar dráttarvélarnar á bænum eru annars vegar.
„Já, ég held ég hafi veri sex til sjö ára að keyra Farmal Cub, ég stóð alltaf og var bara í einum gír og keyrði og keyrði. Uppáhalds dráttarvélin mín í dag er Zetor 52 11,“ segir Kristján.
Og má fólk koma hingað og skoða?
„Já, já og það er frítt og öllum er leyfilegt að koma og skoða þær og jafnvel að prófa.“

Það eru ekki bara gömlu dráttarvélarnar á Grund, sem vekja athygli því þar er líka Læðan úr Dagvaktinni, bílinn hans Ólafs Ragnars úr þáttunum.
„Það átti nú að henda henni en við ákváðum að taka hana. Hún er nú gangfær en það þarf að setja geymir í hana, þetta er fínasti bíll,“ segir Kristján.

Kristján er ekki bara áhugamaður um dráttarvélar því hann er líka fjárbóndi og þegar hann kallar á kindina sína kemur hún hlaupandi til hans með lömbin sín og fær nammi í fötunni hjá honum.
