Nú er nefnilega ljóst að A-landsliðið og U21-landsliðið munu spila leik og leiki sem skipta máli, á sama tíma í landsleikjaglugganum 19.-27. september.
Sams konar staða var uppi núna í júní og þó að fyrirsögnin á þessari grein gefi annað í skyn þá hafa þeir Arnar Þór Viðarsson og Davíð Snorri Jónasson ekki slegist heldur rætt saman um skynsamlega lausn varðandi það hvort leikmenn fæddir 2000 eða síðar ættu að vera í A- eða U21-landsliðinu. Þannig tala þeir að minnsta kosti út á við og hafa gert í sinni stjórnartíð.
Það sem flækir stöðuna í september er að U21-landsliðið leikur þá tvo umspilsleiki við aðra þjóð um eitt laust sæti í lokakeppni EM. Dregið verður í umspilið eftir átta daga.
Fyrir leikina í júní var ekki vitað hvort að nokkur möguleiki væri fyrir U21-landsliðið á að ná sæti á EM en svo unnu Íslendingar alla þrjá leiki sína og önnur úrslit féllu með liðinu.
Í umspil um EM-sæti eða leik sem gæti skilað EM-umspili?
Í haust er öruggt að umspilsleikirnir tveir ráða úrslitum um hvort Ísland kemst á EM í þriðja sinn – á Evrópumót sem auk þess ræður því hvaða landslið komast á Ólympíuleikana í París 2024.
Leikur A-landsliðsins í haust, gegn Albaníu, ræður því sömuleiðis hvar Ísland endar í sínum riðli í Þjóðadeildinni. Það skiptir máli varðandi möguleikann á komast á EM í Þýskalandi 2024.
Ef A-landsliðið tapar ekki gegn Ísrael á Laugardalsvelli í kvöld á liðið enn möguleika á efsta sæti síns riðils, sem gefur sæti í 2. styrkleikaflokki fyrir undankeppni EM og einnig öruggt sæti í EM-umspili ef til þarf.

Níu í A-landsliðinu sem mættu spila með U21
Það er heill hellingur af leikmönnum í A-landsliðinu núna sem gjaldgengir væru í leiki með U21-landsliðinu. Þar að auki heilluðu leikmenn á borð við Kristian Nökkva Hlynsson, Kristal Mána Ingason og fleiri með frammistöðu sinni í U21-landsliðinu og gætu verið freistandi kostir fyrir Arnar í september.
Alls hafa níu leikmenn fæddir 2000 eða síðar verið í A-landsliðshópnum í einum eða fleiri leikjum núna í júní:
- Patrik Sigurður Gunnarsson
- Valgeir Lunddal Friðriksson
- Mikael Egill Ellertsson
- Ísak Bergmann Jóhannesson
- Hákon Arnar Haraldsson
- Þórir Jóhann Helgason
- Andri Lucas Guðjohnsen
- Atli Barkarson
- Bjarki Steinn Bjarkason
Bjarki hóf reyndar törnina í A-landsliðshópnum en var svo færður í U21-landsliðið og spilaði í 5-0 sigrinum gegn Kýpur á laugardaginn og 3-1 sigrinum gegn Hvíta-Rússlandi. Atli var kallaður í A-landsliðið úr U21-landsliðinu eftir leikinn gegn Ísrael 2. júní vegna meiðsla Willums Þórs Willumssonar.
Hefur gerst að U21-landsliðið fái forgang
Nú er bara að sjá hvort hefur forgang, A-landsliðið eða U21-landsliðið, þegar til kastanna kemur í september. Eða kannski tala þjálfararnir sig saman um lausn sem báðir eru ánægðir með.
Alla jafna hefur A-landslið forgang fram yfir U21-landslið en fordæmi er fyrir því að U21-landsliðið hafi algjöran forgang. Það var í aðdraganda þess að Ísland komst í fyrsta sinn í lokakeppni EM U21-landsliða, sumarið 2011, en stjórn KSÍ gaf þá U21-landsliðsþjálfaranum Eyjólfi Sverrissyni forgang fram yfir A-landsliðsþjálfarann Ólaf Jóhannesson við val á leikmönnum.