Meðal hinna látnu eru fjögur börn, barnshafandi kona og spænskur ferðamaður. Ráðuneytið birti í nöfn látinna í dag en um 24 eru sagðir vera enn á sjúkrahúsi eftir sprenginguna við Hotel Saratoga. Þetta kemur fram í frétt AP-fréttaveitunnar.
Í gær gaf fyrirtækið Grupo de Turismo Gaviota SA, eigandi hótelsins, út að þrettán starfsmanna þeirra væri enn saknað. Þá sagði ríkisstjórinn Reinaldo García Zapata á laugardagskvöld að nítján fjölskyldur hafi tilkynnt um ættingja sem hafi ekki skilað sér heim. Hann bætti við að björgunaraðgerðum yrði haldið áfram.
Að sögn yfirvalda er byrjað að jarða suma hinna látnu en að aðrir bíða enn fregna af týndum vinum og ættingjum.
Örfáir dagar í opnun hótelsins áður en það gjöreyðilagðist
Sprengingin kemur sér illa fyrir stöðu ferðamannaiðnaðarins á Kúbu sem var nýbyrjaður að rétta úr kútnum eftir heimsfaraldur kórónuveiru og hertar efnahagsþvinganir Bandaríkjastjórnar sem komið var á í forsetatíð Donalds Trump. Þær fólu meðal annars í sér takmarkanir á komum bandaríska ferðamanna til Kúbu og peningasendingum frá brottfluttum Kúbverjum heim til fjölskyldna sinna.
Hotel Saratoga hefur verið lokað í um tvö ár vegna áhrifa faraldursins en unnið var að því að opna það á ný þegar sprengingin átti sér stað.
Talið er að blossi eða eldur hafi komist að eldsneyti sem var um borð í tankbíl sem stóð fyrir utan fimm stjörnu hótelið í Gamla-Havana. Bifreiðin virðist við það hafa sprungið í loft upp og eyðilagt nokkrar hæðir hótelsins.