Skoðun

Um hafnamál

Rúnar Gunnarsson skrifar

Nú þegar styttist í kosningar er ekki úr vegi að setja saman stuttan pistil um þann hluta sveitarfélagsins Múlaþings sem fær ekki alltaf næga umfjöllun.

Í Múlaþingi eru þrjár hafnir sem hver fyrir sig hefur sína eigin sérstöðu. Allar eiga þær sameiginlegt að vera öflugar og umsvifamiklar á sinn hátt. Borgarfjörður með sína einstöku höfn sem þjónustar stóran smábátaflota, Djúpivogur með mikil umsvif tengd laxeldi og bolfiski og Seyðisfjörður sem er fjórða stærsta höfn landsins þegar kemur að þjónustu við skemmtiferðaskip og umfangsmikil fiskihöfn.

Á næsta kjörtímabili stendur til að fara í miklar framkvæmdir í samvinnu við vegagerðina í öllum höfnunum og verða þær þá enn betur í stakk búnar til að takast á við verkefnin sem eru til staðar. Vinna er nú þegar hafin við nýtt stálþil á Djúpavogi, Borgarfjarðarhöfn verður gerð aðgengilegri og á Seyðisfirði verður gamla Engrosbryggjan endurbyggð og áform eru uppi um lengingu og stækkun Strandarbakka.

Allt verður þetta til þess að Hafnir Múlaþings munu geta aukið þá þjónustu sem boðið er upp á og gefur mikla möguleika á tekjuaukningu í tengslum við hafnsækna starfsemi. En betur má ef duga skal og telur undirritaður að hefja þurfi markvisst átak í markaðssetningu hafnanna. Með Axarvegi auðveldast flutningar milli Djúpavogs og Seyðisfjarðar. Og með tilkomu Fjarðarheiðagangna, sem fara í framkvæmd á næsta ári, mun opnast mikill möguleiki á Seyðisfirði að taka á móti flutningaskipum svipuðum þeim sem sigla á Þorlákshöfn. Þetta er stórt tækifæri til að koma Höfnum Múlaþings rækilega á kortið.

Með stækkun hafnarkants á Seyðisfirði opnast einnig nýjar víddir í móttöku skemmtiferðaskipa. Það verður stórt verkefni að hafa góða stjórn á því að seilast ekki of langt í skipafjölda, en ég held að með góðu samtali við ferðaþjónustuaðila þá hafi Austurland alla burði til að verða leiðandi í skemmtiferðaskipabransanum. Nauðsynlegt er því að setjast saman og marka okkur stefnu í ferðamálum og auðvelda þeim sem hafa áhuga á að koma upp afþreyingu fyrir ferðamenn að gera slíkt.

Við verðum að hugsa stórt og horfa björtum augum á framtíðina.

Höfundur er yfirhafnavörður á Seyðisfirði og skipar 6. sæti á lista Austurlistans.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×