Á fundi trúnaðarráðs VR í gær var til að mynda rætt um umdeilda hópuppsögn, Sólveigar Önnu Jónsdóttur, á öllu skrifstofustarfsfólki Eflingar.
Fréttastofa ræddi við marga í trúnaðarráði VR í dag. Þar ríkir gríðarleg óánægja með hópuppsögnina. Fólki þar þykir hún skaða verkalýðshreyfinguna í heild sinni og þá fór þessi lýsing Sólveigar Önnu á skrifstofu fólki sínu í Facebook-færslu hennar í gær fyrir brjóstið á mörgum:
„...ætlum við að sætta okkur við að skrifstofuvirkið í Guðrúnartúni lokist á ný, sérfræðingaveldi hinnar menntuðu millistéttar taki yfir kjarabaráttuna okkar og fólk sem bókstaflega engan skilning hefur á róttækri verkalýðsbaráttu og enga getu til að leiða hana taki yfir stjórn félagsins?“
Færsluna birti hún rétt fyrir félagsfund Eflingar í gær en þar hvetur hún félagsmenn til að veita sér stuðning svo stéttarfélagið festist ekki í höndum „sérfræðingaveldis hinnar menntuðu millistéttar“ sem hefði „enga getu til að leiða [kjarabaráttuna]“, eins og hún komst að orði. Þar á hún við skrifstofufólkið, sem hún réð margt sjálft á skrifstofuna á sínum tíma sem formaður Eflingar.
Mörgum þykir Ragnar draga lappirnar
VR er auðvitað einn helsti málsvari skrifstofufólks á Íslandi.
Stjórn félagsins sendi frá sér yfirlýsingu eftir hópuppsagnirnar þar sem hún lýsti yfir „þungum áhyggjum“ af þeim og sagðist harma þær.
En mörgum þykir þetta einfaldlega ekki nógu beitt gagnrýni á þessa sögulegu hópuppsögn.
Núverandi formaður VR hefur stutt Sólveigu í hennar baráttu í gegn um tíðina og finnst mörgum í trúnaðarráðinu hann veigra sér um of við að taka upp hanskann fyrir skrifstofufólkið.
Forveri hans í starfi Kristinn Örn Jóhannesson bar því fram tillögu á trúnaðarráðsfundinum í gær þar sem hann vildi ganga enn lengra og hreinlega fordæma hópuppsagnirnar og ítreka skaðsemi hennar fyrir verkalýðshreyfinguna. Tillagan náði ekki í gegn.

Ragnar Þór vildi ekki veita viðtal um málið í dag en samkvæmt heimildum fréttastofu talaði hann gegn tillögu Kristins og lagði fram tillögu um að henni yrði vísað frá. Það var samþykkt með um þremur fjórðu atkvæða þeirra sem voru á fundinum.
Bað ragnar þar fólk í trúnaðarráðinu um að treysta sér fyrir því að bregðast við útspili Sólveigar og sagði hann að enn harðari yfirlýsing frá VR gæti skaðað þá vinnu sem stéttarfélagið væri nú í en það er að aðstoða skrifstofufólk Eflingar sem var sagt upp við margt sem tengist starfslokum þeirra.