Íþróttastjóri AGF, gamli Liverpool-bakvörðurinn Stig Inge Björnebye, tók í byrjun apríl þá ákvörðun að Jón Dagur fengi ekki að spila fleiri leiki fyrir liðið. Viðræður um nýjan samning hans við félagið höfðu þá runnið út í sandinn og ljóst að Jón Dagur færi í nýtt félag í sumar, að tímabilinu loknu.
Jón Dagur hefur því ekki spilað fyrir AGF eftir landsleikjahléið í lok mars og á meðan hefur liðið ekki unnið einn einasta leik. Þriðja tapið í röð kom gegn OB á sunnudaginn og allt í einu á AGF raunverulega á hættu á að falla úr dönsku úrvalsdeildinni. LIðið er aðeins sex stigum frá fallsæti þegar fimm umferðir eru eftir.
Því varð algjör kúvending, eins og danskir fjölmiðlar orða það, í afstöðu forráðamanna AGF gagnvart Jóni Degi. Hann verður með í síðustu leikjum tímabilsins eftir að hafa ekki spilað í síðustu sjö leikjum.
„Við ákváðum að virkja Jón í síðustu leikjunum. Þetta er ákvörðun sem við höfum tekið tíma í að taka en frá mínum bæjardyrum séð er þetta hárrétt ákvörðun,“ sagði David Nielsen, þjálfari AGF, við stiften.dk.
„Þegar við tókum ákvörðunina vorum við á öðrum stað og í góðum málum varðandi hættuna á falli,“ sagði Björnebye sem sagði ætlunina hafa verið að þróa liðið með þeim leikmönnum sem yrðu áfram hjá félaginu en það hafi ekki gengið nægilega vel eftir.