Þetta kemur fram á vef umboðsmanns þar sem bréf hans til ríkislögreglustjóra er birt.
Mál Gabríels Boama, sem var á flótta undan lögreglu í þrjá daga, vakti mikla athygli en vakti ekki síður upp umræðu um kynþáttafordóma í íslensku samfélagi. Lögregla fékk gríðarmargar ábendingar í tengslum við leitina; og elti tvær slíkar uppi, sem urðu til þess að lögregla hafði afskipti af sextán ára dreng, dökkum á hörund, eins og Gabríel.
Drengurinn hafði enga tengingu við málið, en móðir hans steig fram í viðtali við fréttastofu í gær, þar sem hún sagði lögreglu hafa gert alvarleg mistök.
Nú hefur umboðsmaður barna blandað sér í málið.
„Í málinu liggur fyrir að afskipti lögreglu áttu sér stað á grundvelli ábendinga frá almenningi, sem virðast fyrst og fremst hafa byggt á húðlit piltsins. Leiða má að því líkum að umrædd atvik hafi verið til þess fallin að valda umræddu barni verulegum óþægindum og ótta, en auk þess telur umboðsmaður barna að atvik af þessum toga séu einnig til þess fallin að grafa úr trausti barna og almennings almennt til lögregluyfirvalda, ekki síst meðal minnihlutahópa, en við því þarf að bregðast,“ segir í bréfinu.
Hefur umboðsmaður því óskað eftir fundi með ríkislögreglustjóra til að „ræða framangreind atvik og viðbrögð lögregluyfirvalda við þeim, sem og þær breytingar sem embættið hyggst ráðast í, til þess að fyrirbyggja að sambærileg atvik eigi sér stað aftur.“