Sjóðheitur Benzema gerði aðra þrennu

Atli Arason skrifar
Real Mallorca v Real Madrid - La Liga Santander
Getty

Hinn 34 ára gamli Benzema heldur áfram að sýna allar sínar bestu hliðar en hann skoraði öll þrjú mörk Real Madrid í 1-3 sigri á Chelsea á Brúnni í fyrri leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Benzema endurtók leikinn frá viðureigninni gegn PSG í 16-liða úrslitum og skoraði aftur þrennu. Benzema er nú búinn að skora 10 mörk í síðustu fjórum leikjum fyrir Real Madrid.

Franski framherjinn kom Madrid yfir með kollspyrnu eftir flottan samleik við Vinícius Júnior á 21. mínútu leiksins. Aðeins þremur mínútum síðar var Benzema búinn að skora aftur og í þetta sinn eftir frábæran undirbúning Luka Modric. Fimmta mark Benzema á aðeins 53 spiluðum mínútum í Meistaradeildinni.

Kai Havertz gerði leikinn aftur spennandi þegar hann skallaði knöttinn í netið eftir glæsilega fyrirgjöf Jorginho á 40. mínútu og Madrid fór því með eins marks forystu inn í hálfleikinn, 1-2.

Real Madrid byrjaði síðari hálfleikinn svo frábærlega er þeir tvöfölduðu forskot sinn innan við mínútu eftir að síðari hálfleikur byrjaði. Benzema fullkomnaði þá þrennuna sína þegar hann gerði sér mat úr mistökum Edouard Mendy, markvarðar Chelsea.

Heimamenn reyndu hvað þeir gátu að svara en fleiri mörk voru ekki skoruð og Chelsea þarf því að sækja sigur á Bernabeu eftir 1-3 tap á Brúnni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira