Teatime ehf. var stofnað meðal annarra af sömu aðilum og stofnuðu fyrirtækið Plain Vanilla Games sem gaf út spurningaleikinn QuizUp. Leikurinn var gríðarlega vinsæll um allan heim en um 100 milljónir manna spiluðu leikinn. Plain Vanilla seldi leikinn til Glu Mobile árið 2016 en honum var síðan lokað í mars á seinasta ári.
Plain Vanilla Games sagði upp öllu starfsfólki sínu stuttu fyrir söluna en fyrirtækið fékk tæpan milljarð greiddan fyrir leikinn. Fyrirtækið lagði upp laupana stuttu eftir söluna.
10 milljónir notenda
Árið 2020 gaf Teatime út leikinn Trivia Royale og notaðist hann við svokallað „royale“ kerfi sem var afar vinsælt meðal tölvuleikjaspilara á þessum tíma þegar leikir eins og Fortnite og Call of Duty: Warzone voru sem vinsælastir.
Trivia Royale var vinsæll fyrst um sinn og þegar sem best gekk var leikurinn með um 10 milljónir notenda. Til að geta spilað einn leik þurftu í kringum þúsund aðrir notendur að gera slíkt hið sama og gátu þeir átt í samskiptum á meðan leikurinn var í gangi. Leikurinn vakti mikla athygli vestanhafs og fjölluðu fjölmiðlar á borð við Yahoo og TechCrunch um hann.
18 milljónir greiddar af 87
TeaTime greiddi búskröfur sem námu á fjórtándu milljóna króna að fullu. Ekkert fékkst greitt upp í almennar kröfur sem námu tæplega 36 milljónum króna. Búið er að greiða tæpar fjórar milljónir króna upp í 38 milljóna króna launa- og lífeyrissjóðskröfur.
Fyrirtækið sagði upp öllu starfsfólki sínu í febrúar 2021 og sagði Þorsteinn B. Friðriksson, einn stofnenda þess, í samtali við Vísi á þeim tíma að ekki væri útilokað að selja leikinn til nýrra eigenda. Leikurinn er sem stendur ekki aðgengilegur á App Store.