Körfubolti

Bikar­meistara­þynnka í Haukum sem töpuðu fyrir botn­liði Grinda­víkur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Robbi Ryan í baráttunni með Grindavík. Hún var frábær í kvöld.
Robbi Ryan í baráttunni með Grindavík. Hún var frábær í kvöld. Vísir/Jónína

Grindavík, botnlið Subway-deildar kvenna í körfubolta, gerði sér lítið fyrir og lagði nýkrýnda bikarmeistara Hauka á þeirra heimavelli í leik liðanna í kvöld. Lokatölur 83-77 gestunum frá Grindavík í vil.

Það var snemma ljóst í hvað stefndi en gestirnir byrjuðu leikinn vel og voru fjórum stigum yfir eftir fyrsta leikhluta. Sá munur var orðinn sex stig í hálfleik en sóknarleikur Hauka var ekki upp á marga fiska í fyrri hálfleik.

Segja má að Grindavík hafi í raun gert út um leikinn í þriðja leikhluta en það var ekki fyrr en undir lok leiks sem Haukar rönkuðu við sér. Það var hins vegar of lítið of seint og Grindavík vann sex stiga sigur, lokatölur í Ólafssal 77-83.

Robbi Ryan var mögnuð í liði Grindavíkur. Hún skoraði 30 stig, tók 14 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Þar á eftir kom Hekla Eir Nökkvadóttir með 15 stig. Hjá Haukum var Lovísa Björt Henningsdóttir stigahæst með 19 stig en hún tók einnig 7 fráköst.

Það vakti athygli að Haiden Palmer var snúin aftur í lið Hauka en hún mun koma til með að leysa Keiru Robinson af hólmi en Keira meiddist í undanúrslitum bikarkeppninnar á dögunum. Haiden spilaði 21 mínútu, skoraði 4 stig, tók 5 fráköst og gaf 6 stoðsendingar.

Grindavík lyftir sér upp fyrir Breiðablik með sigrinum og er nú í 6. sæti með 12 stig. Haukar er á sama tíma í 3. sæti með 28 stig.


Subway-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Subway-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×