Sport

Djoko­vic aftur upp í efsta sæti heims­listans þrátt fyrir að mega ekki spila

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Novak Djokovic mætti á EuroLeague leik með Rauðu Stjörnunni á dögunum en hann hefur ekki fengið að taka þátt í stóru mótunum sem eru með bólusetningarskyldu.
Novak Djokovic mætti á EuroLeague leik með Rauðu Stjörnunni á dögunum en hann hefur ekki fengið að taka þátt í stóru mótunum sem eru með bólusetningarskyldu. Getty/Srdjan Stevanovic

Serbinn Novak Djokovic er aftur kominn upp í efsta sæti heimslistans í tennis sem hann missti þegar hann fékk ekki taka þátt í opna ástralska meistaramótinu.

Djokovic er í fyrsta sæti nýjasta heimslistans sem var gefinn út í morgun.

Djokovic hefur ekki enn spilað tennisleik á árinu þökk sé stífni sinni að láta bólusetja sig. Hann hefur fyrir vikið ekki fengið þátttökurétt á mótum.

Djokovic fékk því ekki að taka þátt í Indian Wells mótinu. Það voru aftur á móti ófarir annars tennisleikara sem hjálpuðu honum upp um sæti á heimslistanum.

Rússinn Daniil Medvedev komst upp fyrir Djokovic en missti sætið aftur þökk sé slakri frammistöðu á Indian Wells.

Medvedev tapaði fyrir Gael Monfils í þriðju umferðinni og þessi árangur dugaði ekki til að halda efsta sæti heimslistans.

Medvedev náði að vera í efsta sætinu í þrjár vikur en þetta verður aftur á móti 362. vika Djokovic í toppsæti heimslistans sem er met. Hann hafði verið á toppnum í 79 daga þegar hann missti efsta sætið til Rússans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×