Mayya er frá Maríupól en hefur búið í 21 ár á Íslandi. Hún segir skelfilegt að horfa upp á stríðið í Úkraínu en hryllingurinn hefur hvergi verið meiri en í Maríupól. Þar hefur fólk verið innikróað frá upphafi innrásarinnar og sætt stöðugum loftrásum.
Inni í rauða hringnum sést íbúðin hennar Mayyu í Maríupól. Í vikunni var sprengju varpað á íbúðina og er allt inni í henni gjöreyðilagt.
Foreldrarnir leita skjóls í kjallaranum
Sprengju var einnig varpað á íbúð foreldra hennar en Mayya hefur ekki heyrt frá þeim í sextán daga.
„Ekkert. Ekkert. Ég vissi ekki neitt eða hvort þau væru á lífi eða ekki,“ segir Mayya Pigida.
Í gær fékk hún upplýsingar frá þriðja manni um að foreldrar hennar séu á lífi og leiti skjóls í kjallara hússins.
„Já það er rafmagnsleysi. Það er ekkert símasamband. Allir vita að það er ekkert vatn. Ekkert gas. Ekki neitt. Ég get ekki lýst þessu ástandi í Maríupól. Þetta er það versta sem getur gerst.“
Hún segir að ástandið sé verra en Vesturlandabúar geri sér grein fyrir, þrátt fyrir fréttaflutning.
Mayya ásamt fleiri úkraínskum konum hefur staðið fyrir söfnun fyrir börn í Úkraínu, en hún segir ótrúlegt að finna fyrir stuðningi.
„Það var mjög frábær dagur. Þetta var ein milljón og 25 þúsund sem safnaðist í gær og ég vil þakka öllum fyrir sem styrkja okkur.“