Malín boðar á Facebook-síðu sinni umfjöllun um árin hjá Vottunum. Hún hefur snert á dvöl sinni þar áður í viðtölum en segir frásögn sína nú vera hennar innlegg í umræðuna um trúarofbeldi. Hvort réttlætanlegt sé að „mannskemmandi sértrúarsöfnuðir“ njóti fjárhagslegs stuðnings hins opinbera.
„Árið 2004 sagði ég skilið við söfnuðinn, eiginmanninn, mömmu, allt fólkið sem ég þekkti og já, eiginlega allt nema geðheilsuna. Henni hélt ég,“ segir Malín. Hún lýsir því að hún hafi alist upp í ríkisstyrktri heilaþvottastöð.
Rætt var við Malín í Ísland í dag árið 2019 um reynslu hennar af Vottunum og fleiri mál.
Vísar Malín þar til þess að skráð trúfélög fá greidd sóknargjöld frá ríkinu. Eftirlit með greiðslunum er lítið sem ekkert eins og fram kom í máli Halldórs Þormars Halldórssonar, fulltrúa sýslumannsins á Norðurlandi eystra, í dómsal á dögunum þar sem mál annars trúfélags var til umfjöllun. Trúfélagið Zuism sem hefur fengið tugi milljóna greiðslna án þess að nokkuð liggi fyrir um virkni og starfsemi félagsins.
Nokkrir Íslendingar stigu fram í viðtali við fréttastofu um síðustu helgi. Þau lýstu útskúfun og útilokun innan vottanna, þeirri aðferð sem fólk er beitt ákveði það að yfirgefa söfnuðinn.
Norðmenn úrskurðuðu nú í janúar að Vottarnir þar í landi skyldu sviptir ríkisstyrkjum vegna útskúfunar sóknarbarna sinna og að stjórnendur Votta Jehóva hafi brotið lög um trúfélög. Það var fréttaskýringaþátturinn Brennpunkt sem varpaði ljósi á afleiðingar útskúfunar Vottanna í Noregi.
Malín rifjar upp þegar hún sem lítið barn gekk á milli húsa til að boða trúna, í fylgd annarra fullorðinna safnaðarmeðlima. Þar var hún vopnuð málgögnum Vottanna, blöðunum Varðturninum og Vaknið!. Hún hafi verið fimm ára gömul.
„Ég man eftir því þegar ég opnaði á mér munninn og sagði: „Vissir þú að guð hefur lofað öllum mönnum að lifa í heimi þar sem allir eru vinir og engin stríð eru?“ Stundum náði ég ekki að klára þessa romsu áður en húsráðendur sögðu: „Jesús minn! Eruð þið að pína barnið til að segja þetta? Sjáið þið ekki að blessuð stúlkan er blá á vörunum af kulda og hríðskelfur!““
Sumir hafi hótað að hringja í Barnaverndarnefnd en aðrir gefið henni pening. Flestir hafi afþakkað blöðin.
„Enginn hringdi í Barnaverndarnefnd. Því miður. Enginn gerði neitt. Og enn styrkir ríkið Votta Jehóva á Íslandi,“ segir Malín. Hún boðar frekari frásögn, meðal annars af líkamlegu ofbeldi innan safnaðarins sem og andlegu ofbeldi.
Að neðan má sjá umfjöllun Kompáss á dögunum um trúarofbeldi.