Umfjöllun: ÍBV - KA/Þór 26-24 | Eyjakonur klóruðu sig fram úr á lokasprettinum

Einar Kárason skrifar
Sunna Jónsdóttir, fyrirliði ÍBV, tryggði sínu liði stigin tvö.
Sunna Jónsdóttir, fyrirliði ÍBV, tryggði sínu liði stigin tvö. vísir

ÍBV vann gríðarlega sterkan tveggja marka sigur gegn Íslandsmeisturum KA/Þórs í Olís-deild kvenna í handbolta í kvöld, 26-24.

Mikið jafnræði var með liðunum  í fyrri hálfleik þar sem liðin skiptust á að taka forustuna og ljóst að það þyrfti að hafa fyrir stigunum tveimur. Mestur var munurinn þrjú mörk milli liðanna í fyrri hálfleik þegar ÍBV komst í stöðuna 9-6 eftir um stundarfjórðung. Gestirnir frá Akureyri hrukku þá í gang og skoruðu næstu fimm mörk leiksins á jafn mörgum mínútum og staðan því orðin 9-11 þegar vel var liðið á hálfleikinn. Það kom engum á óvart þegar hálfleiksbjallan fór af stað að liðin skildu jöfn, 14-14, þegar gengið var til búningsherbergja.

Síðari hálfleikur bauð upp á sömu skemmtun og sá fyrri en Eyjastúlkur þó skrefinu á undan systurpart leiksins. KA/Þór önduðu sífellt í hálsmál ÍBV og náðu að jafna leikinn þegar rúmlega tíu mínútur voru eftir og skoruðu svo næstu tvö mörkin og því komnar yfir, 20-22. Þá var komið að heimastúlkum að elta og tókst þeim loks að jafna leikinn þegar innan við fimm mínútur voru eftir. Rut Jónsdóttir, leikmaður gestanna, skaut því næst í stöng og Sunna Jónsdóttir refsaði grimmilega með því að koma boltanum í netið hinumegin á vellinum og Eyjastúlkur komnar yfir. 

Í næstu sókn KA/Þórs átti sér stað atvik sem skoða þarf betur þegar Unnur Ómarsdóttir ætlaði sér inn úr vinstra horni og svo virðist sem brotið hafi verið á henni í þann mund sem hún skaut að marki. Dómarar leiksins dæmdu hinsvegar ekkert og boltinn sigldi framhjá stönginni fjær, gestunum til mikils ama. ÍBV fóru þá upp í sókn og komu boltanum í netið í þriðju tilraun í sömu sókn og sigurinn því nánast í höfn enda rétt rúm mínúta eftir á klukkunni.

Ekki voru fleiri mörk skoruð eftir þetta og sigur ÍBV í höfn í hádramatískum og skemmtilegum leik. 

Af hverju vann ÍBV?

Það má segja að ÍBV hafi átt lokasveifluna í sveiflukenndum leik. Sunna skoraði þessi tvö mikilvægu mörk sem skilja liðin í sundur en þetta atvik undir lokin gæti haft ýmislegt að segja varðandi úrslit leiksins.

Hverjar stóðu upp úr?

Í liði ÍBV var Sunna Jónsdóttir atkvæðamest með tíu mörk. Henni næst var Harpa Valey Gylfadóttir með fimm. Marta Wawrzynkowska átti prýðisleik í marki Eyjastúlkna og varði fjórtán bolta.

Í liði KA/Þórs skoraði Rut Jónsdóttir mest, samtals átta mörk en Ásdís Guðmundsdóttir skoraði sjö. Matea Lonac, rétt eins og kollegi sinn hjá ÍBV, átti flottan leik með þrettán bolta varða.

Hvað gekk illa?

Mörg góð færi fóru í súginn hjá báðum liðum og fengu marksúlurnar það óþvegið í kvöld. 

Hvað gerist næst?

Eyjastúlkur gera sér ferð með skemmtiferðarskipinu Herjólfi á morgun en þær eiga leik gegn Valsstúlkum á laugardaginn næstkomandi. 

Norðanstúlkur fá hinsvegar lið Hauka í heimsókn á Akureyri þann sama dag. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira