Að sögn Katrínar var fyrst og fremst um samráðsfund að ræða. „Það var rætt um hvað væri hægt að gera meira innan þess sem við ramma sem við störfum samkvæmt innan Atlantshafsbandalagsins. Einnig hvort hægt væri að ganga lengra í efnahagslegum refsiaðgerðum og hvaða áhrif þær eru að hafa,“ segir Katrín.
„Ég held að ég geti sagt að það er mikill samhljómur meðal þessara ríkja þegar kemur að stuðningi við refsiaðgerðir og líka þegar kemur að mannúðaraðstoð og öðru slíku.“

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði fundinn í gegnum fjarfundarbúnað og hvatti ríkin til þess að setja viðskiptabann á Rússland. „Það er það sem við þurfum og það sem þið þurfið einnig, líkt og önnur lönd í heiminum, til þess að tryggja frið í Evrópu og Úkraínu.“
Katrín segir Selenskí einnig hafa lýst stöðunni í heimalandinu. „Hann lýsti þessari stöðu sem er auðvitað bara skelfileg fyrir óbreytta borgara í Úkraínu. Við erum að sjá óbreytta borgara falla, við erum auðvitað að sjá fjölda fólks á flótta þannig að þetta var mjög áhrifamikið.“
Katrín segir refsiaðgerðir í stöðugri endurskoðun. „Það er krafa um að ganga enn lengra og við munum halda áfram að ræða þetta á næstu dögum,“ segir Katrín Jakobsdóttir.