Einnig verður sveigjanleiki til töku lífeyris aukinn og upphafsaldur lífeyris heimilaður frá 60 ára aldri í stað 65 ára. Breytingarnar fela í sér að lágmarksréttur til makalífeyris sem áður var 36 mánuðir, verður nú þannig að við bætist hálfur makalífeyrir í 24 mánuði til viðbótar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá sjóðnum. Breytingar á áunnum réttindum sjóðfélaga sem gerðar voru í nóvember 2021 og ráðgerðar eru á árinu 2022 fela það í sér að áunnin lífeyrisréttindi 65 ára og eldri munu haustið 2022 hafa hækkað samtals um 17,9% miðað við árslok 2020.
Sömuleiðis verður örorkutrygging sjóðfélaga bætt og lífeyrir endurreiknaður oftar en áður hjá þeim sem hafa hafið lífeyristöku og eru enn í launaðri vinnu.
Eignir jukust um 188 milljarða
Að sögn stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hefur sterk staða hans á síðasta ári gert honum mögulegt að auka réttindi verulega.
Eignir sjóðsins jukust um 188 milljarða króna á seinasta ári, þar af voru tekjur af fjárfestingum 174 milljarðar og raunávöxtun hans 11,5%. Heildareignir Lífeyrissjóðs verzlunarmanna voru 1.201 milljarður króna í lok síðasta árs og greiddu 48 þúsund sjóðfélaga iðgjöld til sjóðsins.
Að sögn sjóðsins hafa þessar breytingar í för með sér að skuldbinding sjóðsins gagnvart hverjum og einum sjóðfélaga þurfi að duga lengur en áður, það er fleiri mánuði, en heildarskuldbinding ævilangt verður þó óbreytt.